Ísland hærra en Svíþjóð á ný

Kebnekaise er 2.097 metra hátt.
Kebnekaise er 2.097 metra hátt. Wikipedia/Alexandar Vujadinovic

Hæsta fjall Svíþjóðar, Kebnekaise, hefur farið illa út úr hitabylgjunni sem hefur farið um Svíþjóð síðustu vikur. Hæsti tindur fjallsins, sá syðri, sem venju samkvæmt hefur verið talinn 2.111 metra hár hefur nú verið endurmældur og mælist 2.097,5 metrar. Sænskir miðlar greina frá því að von sé á að syðri tindurinn hopi enn frekar og gæti sá nyrðri þá staðið uppi sem hæsti tindur landsins en hann er nú aðeins hálfum metra lægri.

Íslenska þjóðin getur nú tekið gleði sína á ný því ljóst er að með lækkuninni er Öræfajökull, hæsta fjall Íslands, orðið stærra en Kebnekaise á ný. Hvannadalshnúkur í Öræfajökli hafði um einnar aldar skeið, allt frá árinu 1904, verið talinn 2.119 metra hár og sú tala greipt í allar kennslubækur, þar til Landmælingar Íslands endurmældu fjallið árið 2005. Kom þá í ljós að tindurinn var níu metrum lægri, 2.110 metrar. Metra lægra en það sænska.

Gunnar H. Kristinsson, forstöðumaður mælingasviðs hjá Landmælingum, segir hæðarmælingar þó alltaf vera fyrirvörum háðar enda mælingaaðferðir ólíkar auk þess sem tíðarfar ráði nákvæmri hæð. Hann segir að einhverjir hafi verið að bauka í því í vetur og staðið í þeirri trú að fjallið væri jafnvel hærra en 2.110 metrar. Ekki eru þó nein áform uppi um endurmælingu hjá Landmælingum.

Það er því ekki annað hægt en að slá því sem föstu að Ísland sé hærra en Svíþjóð, í það minnsta þar til annað kemur í ljós. 

Hvannadalshnúkur er hæsta fjall Íslands og þó víðar væri leitað.
Hvannadalshnúkur er hæsta fjall Íslands og þó víðar væri leitað. mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert