Besta veðrið fyrir norðan um helgina

Spáin fyrir laugardag lítur vel út.
Spáin fyrir laugardag lítur vel út. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

„Spáin eins og hún lítur út núna er þokkaleg heilt yfir. Fremur hlýtt og skýjað. Sólarlítið en þokkalegt útivistarveður nema kannski allra syðst þar sem rignir síðdegis á sunnudag og á mánudag,“ segir Þorsteinn V. Jónsson veðurfræðingur í samtali við mbl.is. Fyrir þá sem ætla að elta góða veðrið um helgina er skynsamlegast að fara norður samkvæmt Þorsteini.

Helgin byrjar með rigningu, á föstudag, sunnan- og vestanlands. Þá er von á síðdegisskúrum á Norður- og Austurlandi.

Þurrt verður að mestu á laugardag fyrir utan smá rigningu inn að landi. „Hægur vindur, hlýtt og fínt á laugardag,“ segir Þorsteinn.

Sömu sögu er að segja af spánni fyrir sunnudag. Það verður hlýtt og skýjað að mestu en hvessir við suðurströndina á sunnudagskvöld. Á Norður- og Austurlandi gæti hitinn náð allt að 19 gráðum. Allra syðst á landinu mun þó líklegast rigna síðdegis á sunnudag.

Spáin fyrir mánudag hefur batnað töluvert frá því í gær og lítur vel út. Það verður smá væta syðst á landinu en annars þurrt að mestu og áfram hlýtt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert