Fram undan er ein stærsta ferðahelgi ársins og því er ljóst að margir verða á ferðinni á vegum landsins. Sérfræðingur í forvörnum hjá VÍS beinir til ökumanna að gefa sér nægan tíma þegar haldið er út í umferðina um helgina og bendir á að ökumenn græði ekki mikinn tíma á framúrakstri.
„Það verður mikil umferð. Við viljum leggja áherslu á að fólk fari varlega í framúrakstri, allir noti bílbelti og stilli hraðanum í hóf. Þá á sjálfsögðu ekki að aka eftir að hafa neytt áfengis. Þessir þættir eru orsakir alvarlegra umferðarslysa sem hafa orðið, bæði um verslunarmannahelgi og í umferðinni á Íslandi almennt,“ segir Ágúst Mogensen, sérfræðingur í forvörnum hjá VÍS.
Hann segir einnig sívaxandi hættu fólgna í snjallsímanotkun undir stýri. „Við viljum einnig leggja sérstaka áherslu á að fólk láti snjallsímana og samfélagsmiðlana vera í akstri. Ef þú lítur af veginum á 90 km hraða í eina sekúndu þá færist þú samt sem áður um 25 metra,“ segir Ágúst.
Ágúst nefnir einnig að aðstæður til framúraksturs þessa helgi verði erfiðar og ræður ökumönnum frá því að taka óþarfa áhættu. „Það er víða erfitt að taka fram úr og fyrir utan það ertu ekki fyrr búinn að taka fram úr tiltekinni bílalest þegar þú lendir fyrir aftan þá næstu. Hvort þú ert kominn tíu mínútum fyrr á áfangastað því þú vilt aka hraðar, það er bara ekki þess virði.“
Hann segir að markmiðið sé að allir komist heilir á áfangastað um helgina. „Þessi helgi er til þess að skemmta sér, njóta og hafa gaman. Við ættum ekki að láta umferðarslys spilla fyrir gleðinni,“ segir Ágúst.
Á heimasíðu VÍS má einnig sjá heilræði um að ökumenn skuli ávallt setjast óþreyttir undir stýri, enda segir þar að svefn og þreyta sé fjórða algengasta orsök banaslysa í umferðinni hér á landi. Þegar ökumaður finnur fyrir skyndilegri þreytu skal hann aka á öruggt svæði og taka sér 15 mínútna kríu áður en hann heldur akstrinum áfram.