Héraðsdómur Vesturlands framlengdi í morgun gæsluvarðhald yfir manni, sem er grunaður um að hafa stungið bróður sinn á Akranesi, um fjórar vikur, eða til 29. ágúst.
Úrskurðurinn hefur verið kærður til Landsréttar.
Gæsluvarðhald yfir manninum átti að renna út í dag en hnífstunguárásin var framin aðfaranótt 23. júlí. Sá sem varð fyrir árásinni er á batavegi.
Jón Haukur Hauksson, staðgengill lögreglustjórans á Vesturlandi, segir að Landsréttur muni kveða upp sinn dóm annaðhvort á morgun eða á mánudaginn.
Hann segir skýrslutökur í málinu vera að mestu leyti búnar og að rannsókn miði vel.
Lögreglunni á Akranesi barst tilkynning frá sjúkrahúsinu á Akranesi aðfaranótt 23. júlí um að þar léti maður ófriðlega í mjög annarlegu ástandi. Þegar lögregla kom á vettvang reyndist hann hafa stungið af og framið skemmdarverk á sjúkrahúsinu.
Síðar hafði maður samband við lögreglu og tilkynnti um að ráðist hefði verið á sig. Þegar lögregla kom á vettvang reyndist maðurinn sem tilkynnti um árásina hafa stungið árásarmanninn, þann sem látið hafði ófriðlega á sjúkrahúsinu. Játaði maðurinn að hafa stungið árásarmann sinn, sem særðist alvarlega og var fluttur á Landspítalann.