Neistaflug er fjölskyldusportið

Fjölskyldan er samheldin og koma þau öll að Neistaflugi í …
Fjölskyldan er samheldin og koma þau öll að Neistaflugi í ár með einum eða öðrum hætti. F.v. Guðmundur, María Bóel, Eyrún Björg og Guðrún. Ljósmynd/Aðsend

Fjölskylduhátíðin Neistaflug fer fram í 26. sinn nú um helgina í Neskaupstað. Að sögn skipuleggjenda er hátíðin í senn fjölskylduhátíð og bæjarhátíð Norðfirðinga og Austfirðinga allra þar sem allir leggja sitt af mörkum svo að sem best megi takast til. Mæðgurnar Guðrún Smáradóttir og Eyrún Björg og María Bóel Guðmundsdætur eru skipuleggjendur hátíðarinnar í ár.

Blásið verður til heljarinnar veislu í bænum þar sem vegleg dagskrá verður á boðstólum fyrir unga sem aldna. Stjórnin, Stuðmenn, Matti Matt og Jógvan Hansen, Einar Ágúst, Logi Pedro og Birnir eru meðal þeirra sem koma fram á hátíðinni auk fjölda skemmtilegra viðburða sem verða í boði fyrir alla fjölskylduna. Hátíðin fer af stað með látum í kvöld þar sem hljómsveitin Dúndurfréttir stígur á stokk.

Alltaf heima um verslunarmannahelgi

Spáð er hæglætisveðri fyrir Austurland um helgina sem er lítil breyting frá fyrri hluta sumars þar sem veðurguðirnir hafa verið einstaklega hliðhollir Austfirðingum í sumar. Nóg verður um að vera frá morgni til kvölds í bænum um helgina. Sápubolti, kassabílarallý, Kjöríshlaup, leikhópurinn Lotta, stórtónleikar og dansleikir er meðal þess sem er á dagskrá Neistaflugs í ár og því ljóst að eitthvað verður fyrir alla á hátíðinni, en nánar má lesa um dagskrána hér

„Við tökum fagnandi á móti öllum sem vilja vera með okkur því að hér er gott að vera,“ segir Guðrún Smáradóttir, Norðfirðingur og einn skipuleggjenda Neistaflugs. Guðrún hefur fylgt hátíðinni frá upphafi ýmist í undirbúningi, sem hátíðargestur eða skipuleggjandi hátíðarinnar. „Ég hef aldrei farið að heiman um verslunarmannahelgi. Oftar en ekki hef ég verið þátttakandi að einhverju leyti en ég hef alltaf verið hér í bænum,“ segir Guðrún og hlær.

Miðað er að því að hátíðin henti fyrir alla fjölskylduna.
Miðað er að því að hátíðin henti fyrir alla fjölskylduna. Ljósmynd/Kristín Hávarðsdóttir

Langlíf hátíð

Hátíðin er fyrst og fremst fjölskylduhátíð en stefnt er að því ár hvert að hafa dagskrána sem fjölbreyttasta. „Við hugsum þetta alltaf þannig að við höfum eitthvað fyrir alla.“ Guðrún segir að það hafi verið mikil aukning í armbandasölu á hátíðina en þau finni jafnframt fyrir því að fólk vilji styrkja og styðja við hátíðina þar sem styrkir fyrirtækja hafi dregist saman milli ára. „Þetta er mjög langlíf hátíð, þetta er orðin ein elsta verslunarmannahelgarhátíðin á landinu,“ segir Guðrún. 

Von er á að fjöldi fólks leggi leið sína í Neskaupstað yfir helgina. Margir íbúar Fjarðabyggðar sækja viðburði Neistaflugs en auk þeirra eru margir sem koma enn lengra að, svo sem brottfluttir Norðfirðingar. „Ég sé að það er fullt af fólki komið í bæinn sem er komið til að vera fram yfir helgi með fjölskyldu sinni og vinum. Veðrið hefur verið okkur svo hliðhollt í sumar og við ætlum að vona að það breytist ekkert núna þó svo að við viljum auðvitað að allir njóti,“ segir Guðrún glöð. 

Stórtónleikar verða á sunnudagskvöld þar sem Stuðmenn koma m.a. fram …
Stórtónleikar verða á sunnudagskvöld þar sem Stuðmenn koma m.a. fram og enda þeir með flugeldasýningu. Ljósmynd/Hlynur Sveinsson

Öll fjölskyldan viðriðin hátíðina

Dóttir Guðrúnar, Eyrún Björg Guðmundsdóttir, er framkvæmdastjóri hátíðarinnar í ár og eiginmaður Guðrúnar, Guðmundur R. Gíslason tónlistarmaður, mun koma fram á stórtónleikum Neistaflugs á sunnudagskvöldinu. Þá er yngri dóttir þeirra Guðmundar, María Bóel Guðmundsdóttir, einnig í skipulagsteymi Neistaflugs með mömmu sinni og systur. Því er heimilið undirlagt í skipulagningu hátíðarinnar.

„Við höfum öll verið í þessu, okkur finnst þetta gaman. Það þarf að gera svona hluti og okkar hugsjón er sú að við tökum þátt og okkur finnst þetta bara svo skemmtilegt. Þetta er auðvitað heljarinnar vinna, en fólk er mjög þakklátt fyrir vinnuna,“ segir Guðrún.

Mæðgurnar að störfum í undirbúningi Neistaflugs. F.v. María Bóel, Eyrún …
Mæðgurnar að störfum í undirbúningi Neistaflugs. F.v. María Bóel, Eyrún Björg og Guðrún. Í speglinum má svo sjá Guðjón Birgi, eiganda Hljóðkerfaleigu Austurlands. Ljósmynd/Aðsend

Tala ekki um annað en Neistaflug

Aðspurð hvort Neistaflug sé því eins konar fjölskyldusport segir hún að það megi kannski segja það. „Gummi ætlar að spila, hann var í fyrstu framkvæmdastjórn Neistaflugs árið 1993, þá 23 ára, eins og dóttir okkar er núna en hún er nú framkvæmdastjóri Neistaflugs í fyrsta sinn. Svo erum við mæðgur saman í þessu í ár,“ segir Guðrún en þær njóta einnig góðs af leiðsögn Guðjóns Birgis Jóhannssonar, eiganda Hljóðkerfaleigu Austurlands, sem kemur jafnframt að skipulagningu Neistaflugs. 

Guðrún segir að það takist vel að vinna að hátíðinni innan veggja heimilisins. „Það er svo gott að ræða málin og spyrja ráða því Gummi hefur gert þetta áður. Við tölum eiginlega ekki um neitt annað en Neistaflug þessa dagana.“ segir Guðrún og hlær. „Við erum náttúrulega ekkert alltaf sammála og það er mjög eðlilegt því við erum fjögur í fjölskyldu. En við virðum skoðanir hvers annars og svo er tekin sameiginleg lending í ákvarðanatöku eftir spjall, það er bara þroskandi og skemmtilegt,“ segir Guðrún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert