Ökumaður olli rafmagnsleysi á Akureyri

mbl.is/Hjörtur

Ökumaður, sem grunaður er um ölvun við akstur, ók á rafmagnskassa, ljósastaur og kyrrstæðan bíl í Þórunnarstræti á Akureyri um miðnætti í nótt. Vegna ákeyrslunnar á rafmagnskassann sló út rafmagni í nokkrum húsum við götuna. Ökumaðurinn ók svo af vettvangi.

Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Akureyri barst tilkynning um miðnætti um að ekið hefði verið á rafmagnskassann. Er lögreglan kom á vettvang var ljóst að einnig hafði verið ekið á ljósastaur og kyrrstæðan bíl.

Lögreglan hóf leit að bílnum og fann hann mannlausan nokkru síðar. Hann er töluvert skemmdur og vart ökuhæfur. Stuttu síðar fann hún hinn meinta ökumann og var hann þá kominn heim til sín. Hann var handtekinn og fluttur á lögreglustöð þar sem hann gistir nú fangageymslur.

Maðurinn var einn í bílnum og er eins og fyrr segir grunaður um ölvunarakstur.

Gert var við rafmagnskassann skömmu síðar og rafmagni komið á húsin við Þórunnarstræti á ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka