Orðin eins og ný og full tilhlökkunar

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir er í 10. sæti eftir fyrsta keppnisdag …
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir er í 10. sæti eftir fyrsta keppnisdag heimsleikanna í crossfit sem fram fara um helgina. Ljósmynd/Facebook

„Það er auðvitað ekkert sem kemur á óvart lengur,“ segir Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir, sem er að taka þátt í sínum fjórðu heimsleikum í crossfit sem fram fara í Madison í Wisconsin í Bandaríkjunum um helgina.

Keppnin hófst í gær og það kom mörgum í opna skjöldu hversu erfiður fyrsti keppnisdagurinn var þar sem keppt  var í fjórum greinum. Dagurinn hófst á hjólreiðum og lauk með maraþoni á róðrarvél. Þess á milli hífðu keppendur sig upp í fimleikahringjum og lyftu mörg hundruð kílóum í formi hnébeygja, axlapressa og réttstöðulyftu.  

„Ég var aðeins stíf þegar ég vaknaði, skiljanlega, en ég er bara mjög fín að öðru leyti.  Ég viðurkenni það alveg að ég var mjög þreytt eftir róðurinn en álag sem þetta er eitthvað sem ég æfi allt árið til að ráða við,“ segir Ragnheiður Sara, eða Sara eins og hún er gjarnan kölluð. „Ég fór í kalt bað, heita sturtu, borðaði vel og svaf síðan vel. Ég verð orðin eins og ný þegar ég mæti í keppnina á morgun.“ Keppendur fengu kærkomna hvíld í dag en keppnin heldur áfram á morgun og stendur yfir fram á sunnudag þegar í ljós kemur hverjir hljóta titlana hraustasta kona og karl heims.

Sara reri 42 kílómetra á rétt rúmum þremur klukkustundum.
Sara reri 42 kílómetra á rétt rúmum þremur klukkustundum. Ljósmynd/Facebook

Bjalla í áhorfendaskaranum truflaði talninguna

Sara er í tíunda sæti eftir fyrstu greinarnar fjórar. „Að vera á topp tíu eftir fyrsta daginn er eitthvað sem ég er mjög ánægð með, sérstaklega þar sem ég gerði mistök sem kostuðu mig í fyrsta „eventinum.“ Það er langt eftir af keppninni og ég hlakka bara til að halda áfram,“ segir hún.

Mistökin sem Sara á við áttu sér stað í fyrstu keppnisgreininni þar sem keppendur hjóluðu tíu hringi á 1,2 kílómetra langri braut á götuhjóli. „Við áttum að heyra í bjöllu sem væri okkar vísbending um að það væri bara einn hringur eftir. Það voru hins vegar einhverjir í áhorfendaskaranum með bjöllur og ég taldi mig heyra bjölluna þegar áttundi hringurinn var að klárast og ég fór því einum hring of snemma á fulla ferð og kláraði orkuna þar af leiðandi of snemma,“ segir Sara, sem kláraði orkuna því of snemma og endaði í 21. sæti af 40 keppendum. „Ég hefði alveg getað unnið ef ég hefði verið með talninguna á hreinu.“

Fyrsta keppnisgreinin einkenndist af hjólreiðum þar sem bjalla í áhorfendaskaranum …
Fyrsta keppnisgreinin einkenndist af hjólreiðum þar sem bjalla í áhorfendaskaranum truflaði Söru. Ljósmynd/Facebook

Persónuleg met í lyftingunum

Þrátt fyrir brösuga byrjun náði Sara sér vel á strik í þriðju greininni, Crossfit Total, sem var samsetning af þremur lyftingaæfingum; hnébeygju, axlapressu og réttstöðulyftu. Sara setti persónuleg met í hnébeygju og réttstöðulyftu og lyfti samanlagt rúmum 376 kílóum (810 pundum).

Sara hafnaði í tíunda sæti í maraþonróðrinum og reri hún samtals í þrjár klukkustundir og átta mínútur. Álagið yfir allan daginn var því gríðarlegt. „Við vitum öll að það er eitthvað slæmt sem bíður okkar og fyrsti dagurinn er gjarnan mesta „challenge-ið“. Það er alltaf eitthvað langt og erfitt sem gerist þá og í þetta skiptið var það 42 kílómetra róður. Núna er það búið og ég hlakka bara til helgarinnar því ég er viss um að það er fullt af einhverju skemmtilegu sem bíður okkar,“ segir Sara.

Sara er að keppa á sínum fjórðu heimsleikum í röð. …
Sara er að keppa á sínum fjórðu heimsleikum í röð. Hún hefur tvisvar sinnum hafnað í þriðja sæti og einu sinni í því fjórða. Ljósmynd/Facebook

Hinn óútreiknanlegi „ameríski Dabbi kóngur“ 

Eitt af einkennum heimsleikanna í crossfit er leyndin sem hvílir yfir keppnisgreinunum og því myndast ávallt mikil spenna þegar stjórnandi leikanna kynnir næstu greinar. Keppt verður í tveimur greinum á morgun en enn þá á eftir að tilkynna greinarnar sem keppt verður í á laugardag og sunnudag. Opnunarhátíð leikanna stendur nú yfir og býst Sara við að þar muni hún og hinir keppendurnir fá að vita aðeins meira. „En sem fyrr vitum við ekkert hvað ameríski Dabbi kóngur tekur upp á,“ segir Sara og á þá við Dave Castro, stjórnanda heimsleikanna í crossfit. 

Hinn óútreiknanlegi og leyndardómsfulli Dave Castro, stjórnandi heimsleikanna í crossfit, …
Hinn óútreiknanlegi og leyndardómsfulli Dave Castro, stjórnandi heimsleikanna í crossfit, á milli Katrínar Tönju Davíðsdóttur, tvöfalds sigurvegara heimsleikanna, og Ragnheiðar Söru Sigmundsdóttur, tvöfalds bronsverðlaunahafa. Ljósmynd/Facebook

Sara hefur tvisvar lent í þriðja sæti á heimsleikunum og einu sinni í fjórða sæti. Hún er staðráðin í að gera betur í ár. Katrín Tanja Davíðsdóttir og Annie Mist Þórisdóttir, fyrrverandi hraustustu konur heims, eru einnig meðal keppenda og er Annie Mist í þriðja sæti og Katrín í því sjötta. Oddrún Eik Gylfadóttir er að keppa á sínum fyrstu heimsleikum og er hún í 28. sæti eftir fyrsta keppnisdaginn. Björgvin Karl Guðmundsson, eini íslenski keppandinn í karlaflokki, er í áttunda sæti.

Annie Mist Þórisdóttir er efst íslensku keppendanna eftir fyrsta keppnisdaginn, …
Annie Mist Þórisdóttir er efst íslensku keppendanna eftir fyrsta keppnisdaginn, í þriðja sæti. Hún hefur tvisvar sinnum sigrað heimsleikana. Ljósmynd/Facebook

Hér er hægt að fylgjast með heimsleikunum í beinni en næsta grein hefst klukkan 14 á morgun, föstudag, þar sem keppendur munu etja kappi í þrautabraut á milli þess sem þeir klifra í köðlum, í þyngingarvestum auðvitað, annars væru þetta ekki heimsleikarnir í crossfit. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert