Lögreglan í Vestmannaeyjum, ÍBV, Vestmannaeyjabær og Heilbrigðisstofnun Suðurlands hafa gefið út veggspjald með skýrum skilaboðum um nauðganir gegn sofandi fólki. Yfirskriftin er: „Sofandi samþykkir ekkert.“
„Eins og fram kemur í texta spjaldsins er allt að helmingur tilkynntra nauðgana brot gegn sofandi fólki. Það er von okkar sem að verkefninu stöndum að auglýsingin veki fólk til umhugsunar um þessi alvarlegu brot, auki skilning á þeim og hafi forvarnargildi. Auk þess hvetjum við mögulega þolendur til að leita sér aðstoðar hið fyrsta,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni í Vestmannaeyjum.