Annie Mist í toppbaráttunni

Annie Mist Þórisdóttir er efst íslensku keppendanna þegar heimsleikarnir í …
Annie Mist Þórisdóttir er efst íslensku keppendanna þegar heimsleikarnir í crossfit eru um það bil hálfnaðir. Ljósmynd/Facebook

Annie Mist Þórisdóttir heldur áfram að gera það gott á heimsleikunum í crossfit þar sem hún náði fjórða sæti í sjöttu keppnisgreininni sem lauk rétt eftir klukkan tíu í kvöld. Hraði og kraftur voru lykilatriði í greininni sem fólst í kapphlaupi í formi jafnhendingar, eða „clean and jerk ladder“ þar sem keppendur áttu að jafnhenda fimm mismunandi þyngdir.

Útsláttarfyrirkomulag var í greininni og komust 20 af 40 keppendum áfram í undanúrslit þar sem stöngin var þyngri en í undanrásunum. Fimm keppendur komust svo áfram í úrslit þar sem þyngt var enn á ný.

Keppendur höfðu aðeins eina mínútu til að ljúka við lyfturnar fimm í fyrstu umferð. Björgvin Karli Guðmundssyni tókst að klára en tíminn dugði honum ekki í undanúrslit. Staða hans í heildarkeppninni helst óbreytt og er hann sem stendur í sjöunda sæti. 

Oddrún Eik Gylfadóttir sem er að keppa á sínum fyrstu heimsleikum var þriðja í sínum riðli og komst ekki áfram í undanúrslit.

Annie Mist hrasaði um lyftingastöngina á leiðinni í mark en það kom ekki að sök og komst hún í undanúrslit líkt og Katrín Tanja Davíðsdóttir og Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir.

Katrín sigraði sinn riðil í undanúrslitunum en tími hennar dugði ekki í úrslit. Annie sigraði einnig sinn riðil og hennar tími dugði í úrslitin þar sem hún endaði í fjórða sæti líkt og áður segir.

Staða íslensku kvennanna er óbreytt eftir sjöttu greinina. Annie Mist er í þriðja sæti, Katrín í fimmta, Ragnheiður Sara í fjórtánda og Oddrún Eik í 26.

Einni grein er ólokið í dag og hefst hún um miðnætti að ís­lensk­um tíma. Greinin nefn­ist Fi­bonacci og sam­an­stend­ur af hand­stöðupress­um, rétt­stöðulyftu með ketil­bjöll­um og fram­stigi með lóðum. Loka­grein­in á heims­leik­un­um í fyrra var með sama sniði og því gefst kepp­end­um kost­ur á að gera bet­ur en í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert