Lísbet Sigurðardóttir
Umferð er tekin að þyngjast á leið á helstu áfangastaði Íslendinga þessa verslunarmannahelgina. Allt hefur þó gengið vel til þessa að sögn lögreglu en hún biðlar til bílstjóra að halda ró sinni, halda framúrakstri í lágmarki og sýna þolinmæði.
Viðbúið er að umferð verði einna mest á leið í Landeyjahöfn í dag. Sölvi Rafn Rafnsson, lögreglufulltrúi lögreglunnar á Hvolsvelli, segir vel hafa gengið í umferðareftirliti lögreglu í dag. Hann segir að umferðin sé áberandi meiri en venjulega en flestir ökumenn séu til fyrirmyndar.
„Það er ekki orðin þung umferð enn þá, hún er tiltölulega létt,“ segir Sölvi. Þó segir hann eitt umferðarslys hafa orðið í dag á svæðinu þar sem ekið var aftan á bifreið. Ökumaðurinn stakk af eftir áreksturinn en fannst stuttu seinna og reyndist þá vera próflaus. Hann býst við að umferðin eigi eftir að aukast þó nokkuð. „Við verðum með stíft eftirlit í dag. Umferðin þyngist eftir því sem líður á daginn,“ segir Sölvi.
Umferðin hefur verið nokkuð róleg á Blönduósi og á Akureyri það sem af er degi en þar verður einnig viðhaft hraðaeftirlit í nokkrum stöðum í umdæmunum í dag. Reiknað er með að umferð standi sem hæst milli 15 og 18 í dag.