Annie Mist Þórisdóttir, sem var í þriðja sæti eftir fyrstu átta greinarnar á heimsleikunum í crossfit sem fram fara í Madison í Wisconsin í Bandaríkjunum um helgina, fékk hjartsláttartruflanir í níundu greininni.
Frá þessu greinir Annie Mist á Instagram-síðu sinni nú í kvöld. Annie Mist lenti í 21. sæti í greininni, eftir að hafa farið vel af stað og framan af var mjótt á munum milli hennar og Katrínar Tönju Davíðsdóttur sem hafði þriðja sætið af Annie Mist með sigri í níundu greininni.
„Mér fannst þessi grein alveg æðisleg,“ segir Annie Mist á Instragram. Ég var svo ánægð þegar ég var búin með hnébeygjurnar á öðrum fæti og kom að kassahoppunum sem ég vissi að væru mín. Ég var búin að vonast eftir þessum háu kassahoppum.“
En þá hafi nokkuð gerst sem hún hafi þurft að vinna með frá því hún var unglingur. Hjartsláttartruflanir. „Ég fékk hjartsláttartruflanir á fimmta setti. Þetta kemur fyrir kannski 3-4 sinnum á æfingum í gegnum árið og ég hef ekki viljað fara í aðgerð. Þetta hefur aldrei gerst í keppni áður, en það gerðist í dag.“
Það veki óneitanlega ótta þegar maður upplifi að hafa ekki lengur stjórn á líkama sínum og með svo margar konur í góðu formi í kringum sig hafi ekki komið til greina að hvíla sig.
„Ég held að það kunni að hafa verið höggin frá kassahoppunum sem ollu því og ég fékk tvö tilfelli til viðbótar áður en ég kláraði 25. endurtekninguna.“
Stundum gangi hlutirnir ekki eins og maður vilji og þá geti maður bara ráðið hvernig maður bregðist við þeim, sagði Annie Mist sem ætlar að halda áfram og taka tíundu greinina sem keppni hefst í klukkan 23 að íslenskum tíma.