Katrín Tanja Davíðsdóttir, hraustasta kona heims árin 2016 og 2017, sigraði í sjöundu grein heimsleikanna í crossfit sem fram fara í Madison í Wisconsin í Bandaríkjunum um helgina.
Katrín Tanja var í fimmta sæti í heildarkeppninni fyrir greinina en með sigri er hún komin í það fjórða.
Keppni lauk rétt fyrir klukkan tvö í nótt en greinin nefnist Fibonacci og samanstendur af handstöðupressum, réttstöðulyftu með ketilbjöllum og framstigi með lóðum. Lokagreinin á heimsleikunum í fyrra var með sama sniði og því gafst keppendum kostur á að gera betur en í fyrra.
Keppendur höfðu sex mínútur til að ljúka greininni. Björgvin Karl Guðmundsson, eini íslenski keppandinn í karlaflokki, náði ekki að ljúka greininni innan tímarammans en hafnaði samt sem áður í 12. sæti af 39 keppendum og er hann í 6. sæti í heildarkeppninni að loknum öðrum keppnisdegi.
Katrín Tanja stóð uppi sem sigurvegari í greininni líkt og fyrr segir en hún lauk keppni á þremur mínútum og 31 sekúndu. Annie Mist Þórisdóttir hafnaði í þriðja sæti og er hún jafnframt í þriðja sæti í heildarkeppninni, efst íslensku kvennanna.
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir var sjötta í greininni og færðist með því upp í sjötta sæti í heildarkeppninni.
Oddrún Eik Gylfadóttir náði ekki að ljúka greininni og er í 28. sæti í heildarkeppninni.
Heimsleikarnir halda áfram í dag þar sem keppt verður í að minnsta kosti þremur greinum og hefst fyrsta greinin klukkan 13:45 að íslenskum tíma.