Myndlist svífur yfir borðum

Systkinin Ólafur Elíasson og Victoria standa saman að SOE 101, …
Systkinin Ólafur Elíasson og Victoria standa saman að SOE 101, sprettiveitingastað í Marshallhúsinu sem opnar næstu helgi. Hún sér um matinn og hann um myndlistina. mbl.is/Ásdís

Listamaðurinn Ólafur Elíasson hefur gengið íslenskar fjörur og safnað því sem þar rak á land. Það nýtir hann í innsetningu sem nú má sjá í Marshall-húsinu, en á næstunni verður opnaður þar SOE Kitchen 101, sprettiveitingastaður hans og systur hans Victoríu Elíasdóttur. 

Ólafur sækir bæði hugmyndir og efnivið til Íslands, þar sem rætur hans liggja.

„Ég og mitt fólk tíndum rekavið úr fjörum, eins og ég hef oft áður gert. Snemma í vor, í mars eða apríl, keyrðum við á Strandir og hreinsuðum nánast ströndina af ýmsu dóti, en þar má oft finna alls kyns spennandi hluti. Í raun er þetta mengun, og svo rekaviður. Við fylltum bílinn nokkrum sinnum með öllum þessum gersemum strandarinnar. Og með þessum fundnu hlutum og rekaviði, ásamt efni sem ég kom með frá Berlín, bjó ég til 24 lítil listaverk sem eiga það sameiginlegt að vera áttavitar,“ segir Ólafur.

Rýmið og raunveruleikinn

Hver er hugsunin á bak við þessa áttavita? Er það að finna sinn stað í heiminum, eða að finna sína leið?  

„Það snýst um að rata rétta leið. Á hafinu eru engir vegir þannig að það þurfti að nota áttavita til þess að vita hvert maður væri að fara, en einnig til að vita hvar maður var. Áttaviti er kjarninn, hann sýnir þér hvar þú ert og hvert áttirnar liggja. Ég er nógu gamall til þess að muna þegar maður gekk um náttúruna með áttavita og það er ekkert leyndarmál að ég var ekkert sérlega góður í því! En ég lærði að ganga um hálendi Íslands með áttavita þegar ég fór í ferðir með Útivist sem unglingur. Þannig að ég lærði á áttavita,“ segir hann.

„Ég hef mjög mikinn áhuga á tilfinningunni fyrir rými og fyrir mér er áttavitinn tækifæri til þess að vita í hvaða átt maður snýr. Þegar maður er inni í húsi veit maður oft ekki hvað er í suður og hvað í norður.“

Ólafur notar hluti og rekavið af íslenskum ströndum í áttavita …
Ólafur notar hluti og rekavið af íslenskum ströndum í áttavita sem munu hanga yfir borðum á veitingastaðnum þeirra systkina. mbl.is/Ásdís

„Svo höfum við raðað borðum á annan hátt og höfum langborð, sem þýðir ekki endilega að þú þurfir að tala við ókunnugt fólk við hliðina á þér, en þetta skapar aðra stemmningu. Og ég gerði einn vegg í sægrænum lit; það er liturinn á hafinu hér fyrir utan síðla dags. Það verður einnig barnahorn fyrir krakkana með eldra verki eftir mig, sem eru mikill fjöldi hvítra Lego-kubba. Alla fimmtudaga munu tónlistarmenn frá menningarhúsinu Mengi spila og taka upp tónverk sem mun hljóma hér, en það verður bætt í verkið með nýju tónlistarfólki í viku hverri. Í lok verða svo tónleikar þar sem verkið verður spilað með öllu því tónlistarfólki sem kom að gerð þess. En allt þetta er til þess að ýta undir það sem er hér í forgrunni, og það er að fá fólk til þess að koma hingað, vera saman og borða. Fókusinn er að vera með tilraunaeldhús,“ segir Ólafur.

Faðirinn listamaður og kokkur

Victoría er heilum tuttugu árum yngri en bróðir hennar Ólafur, en þau eru hálfsystkini, samfeðra. Hún er fædd í Danmörku en flutti til Íslands á öðru ári og hefur búið hér nánast allar götur síðan, fyrir utan síðustu ár, sem hún hefur búið í Berlín.

Victoría á ekki langt að sækja mataráhugann.

„Pabbi var matreiðslumaður og vann um tíma á flottustu veitingastöðum Kaupmannahafnar. Þegar ég fæddist ákváðu foreldrar mína að flytja til Íslands. Með það í huga að vinna meira að listinni fór pabbi að starfa sem kokkur á sjó, en hann gerði allt mjög vel sem hann tók sér fyrir hendur,“ segir hún.

Victoría Elíasdóttir er bæði spennt og stressuð fyrir opnun SOE …
Victoría Elíasdóttir er bæði spennt og stressuð fyrir opnun SOE 101-veitingastaðarins. Hún segir verkefnið drifið áfram af ástríðu. mbl.is/Ásdís

Victoría er nú komin aftur í Reykjavíkurhöfn þar sem hún lék sér sem barn, en hún á góðar minningar úr æsku þegar pabbi hennar var að koma af sjónum.

„Ég man eftir mér sem smástelpu hér á höfninni og í feluleik í togaranum þegar við vorum að sækja pabba þegar hann kom heim af sjó. Vinnan á sjónum var frábrugðin vinnu á venjulegu veitingahúsi en það gaf honum tíma til listsköpunar. Hann vann líka að listinni úti á sjó; t.d. vann hann að verki sem var kringlótt grind og hann velti ólíkum kúlum í mismunandi bleklitum og leyfði öldunum að klára verkið. Afar fallegt verk. Þetta var samvinnuverkefni þeirra Óla og pabba og ég man eftir þeim ræða saman í NMT-síma um útfærslur og útkomur verkanna,“ segir hún og brosir.

Þannig að það má segja að þið fetið bæði í fótspor föður ykkar, í list og kokkamennsku?

„Já, mikið rétt, og nú erum við að sameina krafta okkar í Marshallhúsinu og mjög spennt fyrir því að vinna saman,“ segir Victoría.

Fiskur og grænmeti verður í aðalhlutverki hjá Victoríu.
Fiskur og grænmeti verður í aðalhlutverki hjá Victoríu. Ljósmynd/Maria del Pilar Garcia Ayensa / Studio Olafur Eliasson

Finnst þér góð matreiðsla vera list?

„Matreiðsla krefst sköpunar og frjórrar hugsunar. Ég er alin upp við það að pabbi minn var lista- og matreiðslumaður. En ég er ekki hrifin af því þegar fólk segir að ég sé listamaður í eldhúsinu. Ég er matreiðslumaður í eldhúsinu. Vonandi nokkuð hæfileikarík! Þó að ég sé ágæt með pensilinn er ég ekki listamaður í eldhúsinu,“ segir Victoría en viðurkennir að vissulega sé gaman að skapa góðan og fallegan mat.

Tilraun til að vinna náið saman

Hvernig er að vinna með bróður þínum?

„Hingað til hefur það gengið mjög vel, enda leggjum við bæði mikinn metnað í verkefnin okkar og reynum að fá það besta út úr hvort öðru.“

Hefur bróðir þinn áður unnið að verkefni í tengslum við veitingastað?

„Nei, hann hefur ekki gert það. Hann hefur áður gert verk fyrir veitingastað, eins og fyrir Noma, en ekki á þessum mælikvarða. Við höfum talað um það lengi að gera veitingastað þar sem hann hannar útlitið og ég sé um rekstur og matreiðslu. Fyrir okkur er þetta tilraun til að vinna náið saman, þó að auðvitað komi miklu fleiri að verkefninu. Það eru um 30 manns sem koma að þessu á einhvern hátt. Ég hugsa stundum að maður sé hálfbilaður að ráðast í svona verkefni fyrir þrjá mánuði! Að opna alveg nýjan veitingastað í þrjá mánuði en það er ekkert útilokað að við gerum eitthvað til framtíðar. Þetta er afar litríkt tilraunaverkefni,“ segir hún. „Leifur Kolbeinsson, eigandi Marshall restaurant og bar, er að bjóða okkur velkomin á sinn stað og vegna þess er þetta verkefni að veruleika orðið,“ segir Victoría.

„Ég hugsa fyrst og fremst að þetta sé tilraunaverkefni hjá okkur. Við erum með ákveðnar hugmyndir um hvað þetta á að vera en við erum líka opin fyrir því að sjá hvað úr þessu verður. Ólafur er alltaf mjög bjartsýnn en ég stilli væntingum í hóf, kannski til þess að verða ekki fyrir vonbrigðum. Það fylgir því ákveðin ábyrgð að koma verkefninu í gang og halda síðan utan um konseptið. En ég er svo heppin með mitt frábæra teymi og í undirbúningnum er þegar búinn að myndast góður andi milli starfsmanna. Ég trúi því að það sé stór hluti þess að njóta velgengni í starfi þegar fólkið mætir glatt til vinnu og samskiptin á vinnustað eru skýr, heiðarleg og jákvæð. Ég verð hér í þessa þrjá mánuði en Ólafur kemur af og til,“ segir hún.

 „Undirbúningurinn hefur tekið marga mánuði. Við vitum vel að stutt verkefni sem þetta skilar okkur ekki kössum af seðlum en eitt er víst að verkefnið verður aldeilis skemmtilegt og lærdómsríkt. Okkur langaði mikið til þess að standa að þessu saman, verkefnið er drifið áfram af ástríðu fyrst og fremst.“

Viðtöl við systkinin eru í heild í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka