Erfið meiðsli sem Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir varð fyrir í byrjun árs, brákuð eða marin rifbein sögum álags, tóku sig upp á ný á heimsleikunum í crossfit sem fara fram um helgina. Sara hefur því dregið sig úr keppni eins og greint var frá seint í gærkvöldi.
„Stundum eru hlutirnir ósanngjarnir og fara ekki eins og lagt var upp með,“ skrifar Sara í langri færslu sem hún birtir á Instagram. Þar segir hún að hún hafi aldrei verið jafnundirbúin og fyrir leikana í ár. Þetta eru fjórðu heimsleikarnir sem Sara tekur þátt í og hefur hún aldrei lent neðar en í fjórða sæti.
Sara segir að hún hafi verið í töluverðri afneitun og að hún hafi ákveðið að fara í gegnum leikana á hörkunni. Hún fann fyrir óþægindum í rifbeinum strax á fyrsta keppnisdegi í maraþonróðrinum svokallaða þar sem keppendur þurftu að ljúka 42 kílómetrum á róðrarvél. „Verkurinn hvarf eftir tíu kílómetra svo ég hélt að þetta væri ekki svo slæmt,“ skrifar Sara.
Verkurinn var svo aftur mjög slæmur en Sara hélt áfram keppni á föstudag, enn í afneitun. Hún þurfti hins vegar verkjalyf til að komast í gegnum keppnisdaginn og hóf hún einnig keppni í gær. Við undirbúning á níundu og tíundu keppnisgreininni sem fóru fram í gærkvöldi, þar sem keppendur þurftu að snara tveimur mismunandi þyngdum og gera tvenns konar upphífingar, varð Sara að láta staðar numið.
„Verkurinn var orðinn svo mikill að ég gat ekki beygt mig niður til að snara eða gera upphífingu á stönginni. Þetta er eitt það erfiðasta sem ég hef þurft að gera á lífsleiðinni en ég hef ákveðið að draga mig úr keppni vegna álagsmeiðsla í rifbeinum,“ skrifar Sara. Ákvörðunin var tekin í samráði við þjálfara hennar og lækna.
Sara segist miður sín yfir því að geta ekki lokið keppni en hún er sannfærð um eitt: Hún mun snúa aftur.
Í dag ræðst hverjir munu standa uppi sem hraustasti karl og kona heims þegar heimleikunum lýkur. Þrjár æfingar eru á dagskránni í dag en enn sem komið er hefur einungis verið tilkynnt um eina æfingu og hefst hún klukkan 15:20. Fylgst verður með gangi mála hér á mbl.is.