Talsvert um ölvun og akstur undir áhrifum

Lögreglan hafði afskipti af fimm ökumönnum vegna gruns um akstur …
Lögreglan hafði afskipti af fimm ökumönnum vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna í nótt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti að hafa afskipti af talsverðum fjölda fólks vegna ölvunar og aksturs undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna í gærkvöldi og í nótt. Ofsaakstur, skutlari og húsbrot komu einnig við sögu hjá lögreglu í nótt.

Síðdegis í gær barst lögreglunni tilkynning um mann sem ók bifreið sinni á göngustígum við Logafold í Grafarvogi. Með akstrinum spólaði maðurinn upp gróðri. Lögreglan stöðvaði ökumanninn og er hann grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og án réttinda.

Um klukkan hálfátta í gærkvöldi var maður handtekinn við Eskihlíð þar sem hann fór ekki að fyrirmælum lögreglu. Maðurinn var ofurölvi og var vistaður í fangageymslu lögreglu sökum ástands.

Þá var kona sem var ofurölvi handtekin í Hafnarstræti rétt fyrir klukkan þrjú í nótt og var hún vistuð í fangageymslu lögreglu sökum ástands.

Rétt eftir klukkan eitt í nótt var maður handtekinn í Hafnarfirði, grunaður um húsbrot og fleira. Maðurinn var vistaður í fangageymslu lögreglu á meðan rannsókn stendur yfir.

Um klukkan tvö í nótt hafði lögregla afskipti af ökumanni bifreiðar í Mosfellsbæ, svokölluðum skutlara, en maðurinn er grunaður um að aka með farþega gegn gjaldi.

Lögreglan hafði afskipti af fimm ökumönnum vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Einn ökumannanna er jafnframt grunaður um brot á lyfjalögum og vörslu og sölu fíkniefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert