Vindur er byrjaður að aukast í Vestmannaeyjum og eru þegar einhver tjöld byrjuð að fjúka. Gul viðvörun er í gildi fyrir Suðurland í dag þar sem búist er við allhvassri eða hvassri austanátt, allt að 18 metrum á sekúndu þegar mestu lætin ganga yfir.
Samkvæmt upplýsingum frá þjóðhátíðargestum hafa minnst fimm tjöld fokið í morgun í Herjólfsdal.
Þessi austanátt fer vaxandi á landinu í dag, þá sérstaklega syðst,“ segir Hrafn Guðmundsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. „Veðrið gæti orðið vesen á tjaldsvæðinu þegar vindurinn er kominn upp í fimmtán metra á sekúndu en það er svo spurning hvernig þetta verður innst í Herjólfsdalnum, það kemur í ljós.“
Að sögn Hrafns verður veðrið mun skaplegra annars staðar á landinu í dag. „Það verða síðdegisskúrir á Norðurlandi en fínasta veður vestan til, og milt,“ segir hann. „Það verður rólegri vindur vestan til og úrkomulítið.“
Það lægir í Vestmannaeyjum undir morgun þegar veðrið snýr sér í norðaustlægari áttir. Hrafn segir að reikna megi með strekkingi eða allhvössu veðri víðast hvar á landinu á morgun, hvassast verður vestan til og við suðausturströndina.
„Úrkoma verður mest á Norðaustur- og Austurlandi en veðrið verður frekar létt suðvestan til á morgun,“ segir Hrafn og má því reikna með mildu og björtu veðri á höfuðborgarsvæðinu á morgun fyrir utan stífan vind.