Ferðalangar varaðir við hvassviðri

Ökumenn bifreiða sem taka á sig mikinn vind eru beðnir …
Ökumenn bifreiða sem taka á sig mikinn vind eru beðnir að sýna varkárni í umferðinni í dag, en hviður geta farið upp í 25 m/s á sunnanverðu Snæfellsnesi, með suðausturströndinni og á heiðum norðvestan- og vestanlands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ferðalangar á sunnanverðu Snæfellsnesi, með suðausturströndinni og á heiðum norðvestan- og vestanlands ættu að hafa varann á í dag en búast má við hviðum um 25 metra á sekúndu á þessum slóðum og gæti það því verið varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Annars verður norðaustanátt, 10-15 metrar á sekúndu, en heldur hægari vindur á Suðurlandi og um landið norðaustanvert.

Gert er ráð fyrir dálítilli rigningu suðaustanlands og það þykknar upp og fer að rigna víða um norðvanvert landið með deginum en skýjað með köflum annars staðar. Hiti verður á bilinu 7 til 13 stig.

Höfuðborgarbúar geta glaðst yfir því að útlit er fyrir bjartviðri í borginni á frídegi verslunarmanna og mun hitinn ná allt að 18 stigum sunnanlands.

Áfram hvasst á Suðausturlandi á morgun

Í nótt gengur í norðan 15-23 metra á sekúndu um austanvert landið, hvassast verður á Suðausturlandi austan Öræfajökuls og á annesjum á Austfjörðum, með talsverðri eða mikilli rigningu á Austurlandi, á hálendinu norðan Vatnajökuls og á norðanverðum Austfjörðum en á Suðausturlandi verður úrkomulítið.

Hægari vindur verður um landið vestanvert, 10-15 metrar á sekúndu og dálítil rigning norðanlands og á Vestfjörðum en þurrt og bjart suðvestan til. Síðdegis á morgun dregur úr vindi á Austfjörðum en hvessir í 15-20 metra á sekúndu á sunnanverðu hálendinu, vestan Öræfajökuls og undir Eyjafjöllum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert