Hátíðahöld í Vestmannaeyjum fóru rólega af stað í gærkvöldi og voru færri í brekkunni en gert var ráð fyrir. Gefin var út gul viðvörun í gær og vindasamt var í Eyjum og rigndi um tíma í gærkvöldi.
Lögregla og þjóðhátíðarnefnd voru með viðbragðsáætlun vegna þessa og var íþróttahúsið í Eyjum opnað vegna veðurs. Að sögn lögreglufulltrúa leituðu nokkrir skjóls í íþróttahúsinu á meðan versta veðrið gekk yfir en ekki er vitað til þess að þjóðhátíðargestir hafi haft næturstað í íþróttahúsinu. Engar tilkynningar bárust lögreglu vegna veðurs.
Nóttin fór að mestu leyti vel fram að sögn lögreglu. Einn gisti fangageymslu og þrjú fíkniefnamál komu á borð lögreglu. Herjólfur hóf að sigla klukkan tvö í nótt og er lögregla með vakt um borð og við höfnina. Löng biðröð er við ferjuna, á meðan flestir eiga miða eru sumir sem vonast eftir því að komast um borð sem fyrst.