Með tvö kynferðisbrot til rannsóknar eftir nóttina

Færri tóku þátt í brekkusöng þetta árið en oft áður, …
Færri tóku þátt í brekkusöng þetta árið en oft áður, enda veðrið oft verið betra. Mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Lögreglan í Vestmannaeyjum er með tvö mál til rannsóknar eftir síðustu nótt þar sem grunur er um kynferðisbrot. Þá leitaði kona aðstoðar lögreglunnar í Eyjum vegna kynferðisbrots sem hún varð fyrir árið 2017 á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram á Facebook-síðu lögreglunnar í Eyjum, sem segir þá konu hyggjast leggja fram kæru hjá lögreglunni í Reykjavík.

Á sunnudag greindi lögreglan frá því að  maður hafi verið hand­tek­inn í Eyj­um fyr­ir að áreita kyn­ferðis­lega unga konu á bíla­stæði í Herjólfs­dal með því að þukla á henni og hafa því a.m.k. þrjú kynferðisbrot komið á borð lögreglu þessa þjóðhátíð.

Einn gisti fangageymslu eftir nóttina vegna ölvunar og óspekta í Herjólfsdal og fjórar líkamsárásir voru tilkynntar til lögreglu í gærkvöldi og nótt. „Alvarlegasta árásin var tilkynnt til lögreglu um kvöldmatarleytið í gær þegar verið var að flytja mann á landspítala vegna innvortis blæðinga. Árásarþoli vildi ekki segja til árásarmannsins en eftirgrennslan lögreglu leiddi til þess að árásarmaðurinn fannst og var færður til skýrslutöku þar sem hann viðurkenndi líkamsárásina,“ segir í færslu lögreglu. Í öðru máli veittist maður að kærustu sinni með höggum og spörkum. Hans var leitað en fannst ekki. Hinar líkamsárásirnar voru minni háttar og eru til rannsóknar.

Var ölvaður á hesti í Vestmannaeyjabæ

35 fíkniefnamál komu upp hjá lögreglunni á þessari hátíð og eru það færri mál en síðustu ár. Grunur leikur á sölu í tveimur málanna.

Sextán umferðarlagabrot voru kærð um helgina. Voru sex ökumenn kærðir fyrir ölvun við akstur og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og var einn þeirra var ölvaður á hesti í Vestmannaeyjabæ. Önnur mál voru vegna aksturs án bílbelta, fyrir að tala í farsíma án handfrjáls búnaðar, þá var ökutækjum lagt ólöglega og með fleiri farþega innanborðs en leyfi var fyrir.

Síðdegis í gær var tekin ákvörðun um að opna íþróttahúsið þar sem eitthvað af tjöldum voru farin að losna eftir að bætt hafði í vind og einnig byrjað að rigna. Um 400 manns nýttu sér boðið um að sofa í húsinu.

Gestir þjóðhátíðar eru nú farnir að streyma aftur til síns heima, en Herjólfur fer alls ellefu ferðir milli lands og Eyja í dag. Þá er flugfélagið Ernir með loftbrú á Bakkaflugvöll, en 16 ferðir verða farnar í dag og er áætlað að 600-700 manns fari með flugi í dag frá Eyjum.

Eru ferðalangar hvattir til að fara varlega í umferðinni á leiðinni til síns heima og vera vissir um að vera í góðu ástandi þegar þeir hefja akstur en talið er að gestir á þjóðhátíð að þessu sinni hafi verið 14.000-15.000 talsins.

Var það samdóma álit viðbragðsaðila að þrátt fyrir nokkurn vind á síðasta degi hafi gengið vel að aðstoða gesti og almennt hafi skipulag gengið vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert