Hey til Noregs fyrir um 200 milljónir

Rúllurnar 30 þúsund eru að norðan en vonast er til …
Rúllurnar 30 þúsund eru að norðan en vonast er til að fleiri samningar um útflutning verði gerðir á næstunni. Ljósmynd/Friðrik Tryggvason

Heyútflutningur til Noregs hefst um miðjan mánuð. Samið hefur verið við norskar stofnanir um útflutning á 30 þúsund rúllum frá Norðurlandi og eru fleiri samningar væntanlegir. Ríkisútvarpið greinir frá þessu. Bændur fá 6.000-9.000 krónur á rúlluna, eftir innihaldi, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins. Því má gera ráð fyrir að virði heyútflutningsins sé á bilinu 180-270 milljónir króna.

Norska matvælastofnunin hefur um skeið verið með í skoðun hvaða svæði á landinu uppfylli skilyrði til innflutnings og hefur stofnunin nú birt lista yfir tólf svæði á landinu sem það gera. Meðal þeirra eru Snæfellsnes, Dalir, Vestfirðir, Eyjafjörður, Biskupstungur, Grímsnes og Austfirðir. Haft er eftir stofnuninni að hverfandi eða lítil sjúkdómahætta sé af heyi frá þessum svæðum á Íslandi en von er á að rúllurnar 30 þúsund komi úr Eyjafirði, Skagafirði og Þingeyjarsýslum.

Kaupendur eru þrír. Felleskjøpet Agri, sem er kaupfélag, sláturhúsið Nortura og Tine, sem er mjólkurframleiðandi. Á heimasíðunni Fôrformidling (Fóðurmiðlunin) hafa norskir bændur alls óskað eftir 168.000 heyrúllum en Norðmenn hafa einnig skoðað heykaup frá Kanada og Bandaríkjunum þótt Matvælastofnunin norska telji smithættu þar meiri en hérlendis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert