Aflspennir í aðveitustöð Rarik í Hveragerði virðist bilaður, en rafmagnslaust hefur verið í bænum frá klukkan þrjú í dag vegna bilunarinnar. Sérfræðingar Rarik eru að greina hvort hægt sé að laga spenninn eða hvort skipta þurfi honum út.
Verið er að flytja þrjár varaaflsvélar á staðinn til þess að koma rafmagni á. Flutningur vélanna og vinna við tengingu þeirra mun taka nokkurn tíma og er ekki gert ráð fyrir að rafmagn komi á fyrr en í fyrsta lagi um miðnætti. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Rarik.
Þar segir allt gert til að koma rafmagni á bæinn á ný. Nú þegar sé verið að keyra úr 11 kV kerfi RARIK frá Selfossi og Þorlákshöfn, eftir því sem hægt er, til þess að stærri notendur fái rafmagn. Reiknað er með að skammta þurfi rafmagn til annarra notenda á næstu klukkustundum.
Bæjarbúar eru hvattir til að spara rafmagn eins og kostur er. Reynt verður að koma upplýsingum um stöðu mála með SMS-tilkynningum til notenda og á vefsíðu Rarik eftir því sem upplýsingar berast, en vonast er til að allir fái rafmagn þegar búið verður að tengja varavélar, en íbúar eru þó beðnir um að spara rafmagnið áfram.