Mála hinsegin regnboga í brúðkaupsferðinni

Þau Jenny og Shane Shoaf sem eru stödd í brúðkaupsferð hér á landi gripu tækifærið í dag til að mála Skólavörðustíginn í litum regnbogans við setningu Hinsegin daga í Reykjavík. Shoaf-hjónin eru bæði kennarar frá Ohio í Bandaríkjunum og segja það mikilvægt að allir hafi tækifæri til að vera hamingjusamir.

„Við erum augljóslega heppin að hafa fundið hvort annað en við viljum að allir fái sömu tækifærin,“ segir Jenny en hjónin hafa verið á ferðalagi um landið undanfarna tíu daga. Þau voru nýlega stödd á sambærilegri hátíð í heimaborginni Columbus og þegar þau sáu að Hinsegin daga bæri upp á sama tíma og brúðkaupsferðina, pökkuðu þau niður litríkum fötum til að sýna hinsegin Íslendingum samstöðu og taka þátt í hátíðarhöldunum.

Hinsegin dagar voru settir í dag þegar Skólavörðustígur var málaður í litum regnbogans í annað sinn. Gunnlaugur Bragi Björnsson, formaður Hinsegin daga, sagði við tækifærið að baráttu hinsegin fólks væri hvergi nærri lokið og benti á að Ísland væri að dragast á eftir nágrannalöndunum í lagasetningu.

mbl.is var á Skólavörðustígnum í dag en í myndskeiðinu er rætt við Shoaf-hjónin og Gunnlaug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert