„Við fengum hugmyndina þegar við kynntumst dansmenningunni hérna á Íslandi og áttuðum okkur á því hvað það er í raun mikil dansstemning á landinu,“ segja þau Anna Claessen og Friðrik Agni Árnason, stofnendur Dans og kúltúrs sem stendur reglulega fyrir danskennslu, -ferðum og -kvöldum.
Í gær héldu þau danskvöld á Gauknum þar sem leiðbeinendur úr hinum ýmsu dansskólum komu og kenndu dans. West coast swing, kizomba, zumba, jallabina, afro og fleiri dansar voru á dagskránni en Anna segir danspartíin vera fullkominn vettvang fyrir þá sem vilja uppgötva sinn uppáhaldsdans.
„Þetta er frábært bæði fyrir dansfélögin og fyrir dansunnendur sem langar að æfa dans en vita ekki alveg hvar þeir eiga að byrja. Þeir geta komið á danskvöld og fundið strax sinn dans,“ segir Anna. Dans og kúltúr hélt fyrsta danspartíið í júní á Gauknum, sem heppnaðist svo vel að ákveðið var að endurtaka leikinn. „Staðurinn fylltist og þetta heppnaðist vel. Nú ákváðum við að hafa eitt kvöld þar sem fólk getur lært allt að fimm dönsum,“ segir Anna. Anna og Friðrik voru áður með danssýningar á Gauknum en ákváðu að fara skrefinu lengra og leyfa almenningi að taka þátt í dansinum.
Kennarar í allskyns dönsum héldu uppi stemningu og kynntu dans en Anna og Friðrik stukku sjálf á svið og kenndu dansspor í zumba, jallabina og samkvæmisdansi. Þau eru bæði vel kunn dansheiminum og hafa stundað dans frá fjögurra ára aldri. Nú kenna þau zumba og jallabina í Worldclass en Anna líka í Kramhúsinu auk þess að hún er framkvæmdastjóri Dansíþróttasambands Íslands. Friðrik er verkefnastjóri Listahátíðar í Reykjavík. „Það er svo æðislegt að geta starfað við það sem maður hefur áhuga á og að vinna með öðrum. Okkur langar líka að kynna fólki dansinn og leyfa því að upplifa gleðina sem dansinn hefur gefið okkur,“ segir Anna.
Dans og kúltúr starfar á víðu sviði og heldur ekki einungis danskvöld heldur býður einnig upp á danskennslu, skemmtiatriði á viðburðum og dansferðir. Í apríl efndi félagið t.a.m. til ferðar til Spánar, þar sem danskennsla var í fyrirrúmi.