„Eins og þjóðfélagið, þá eru almenningssamgöngur svo sannarlega fyrir alla og við gleðjumst yfir því að Strætó fagni fjölbreytileikanum með okkur,“ segir Gunnlaugur Bragi, formaður Hinsegin daga. Heilmerktur glimmervagn Strætó bs kemur til með að lífga upp á götur höfuðborgasvæðisins á næstu vikum í tilefni af Hinsegin dögum.
Samkvæmt Guðmundi Heiðari Helgasyni, markaðs- og upplýsingafulltrúa Strætó bs, var vagninn í ár hannaður af auglýsingaskrifstofu Strætó í samstarfi við Hinsegin Daga. Strætó tók í fyrsta sinn þátt í gleðigöngunni á síðasta ári en þá var vagninn í litum regnbogans líkt og tákn mannréttindabaráttu samkynhneigðra.
Guðmundur segir hugmyndina að útliti vagnsins í ár að hluta til vera komna frá glimmersvaninum sem tónlistarmaðurinn og skemmtikrafturinn Páll Óskar fór um á í miðbæ Reykjavíkur á gleðigöngunni 2015. Aftan á vagninum stendur svo „besta leiðin í baráttugleðina,“ en „besta leiðin“ er einmitt slagorð Strætó að sögn Guðmundar.
Vagninn fór í akstur fyrr í dag en Guðmundur segist ekki vera viss um hvaða leið hann mun keyra. „Hann mun líklega flakka á milli leiða á meðan hann verður uppi.“
Þá segir Guðmundur vagninn einnig vera umhverfisvænni en gleðivagninn í fyrra þar sem um er að ræða rafvagn í þetta skiptið.
„Í fyrra notuðum við díselvagn þannig þetta verður svolítið spennandi í ár. Þetta verður alveg hljóðlaust í göngunni og það mun held ég passa alveg fullkomlega við hana. Í fyrra var aðeins meiri hávaði og vélarhljóð í honum. Það verður gaman að sjá hvernig þetta kemur út.“
Glimmervagninn mun taka þátt í göngunni sjálfri í ár líkt og í fyrra og segir Guðmundur að hljóðkerfi verði líkast til komið fyrir í vagninum og þaðan spiluð tónlist. Aðspurður segir hann almenna farþega vissulega mega nýta sér vagninn meðan á göngunni stendur en varar við að þeir komist varla langt.
Gleðigangan fer fram á laugardaginn klukkan tvö og verður gengið frá Hörpu að Hljómskálagarðinum. Þar verða svo ókeypis útitónleikar þar sem fjölbreytileikanum verður fagnað.