Utanríkisráðuneytið vill benda fólki sem hyggur á ferðalög til Indónesíu á að kynna sér viðvaranir utanríkisráðuneyta Norðurlandanna og Bretlands sem eru, að sögn ráðuneytisins, í flestum tilfellum með starfsemi á viðkomandi stöðum og geta því gefið mun ítarlegri og betri viðvaranir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu á vef Stjórnarráðsins.
Margir hafa leitað áhyggjufullir til borgaraþjónustu ráðuneytisins vegna hins stóra jarðskjálfta sem reið yfir eyjuna Lombok í Indónesíu á sunnudag. 347 manns hið minnsta létust í jarðskjálftanum og er eyðileggingin víða algjör. Meira en 70 þúsund manns misstu heimili sín í skjálftanum sem mældist 6,9 stig.
Sagt er í tilkynningunni að utanríkisráðuneytið gefi sjaldan út ferðaviðvaranir en bendi þess í stað á viðvaranir utanríkisráðuneyta Norðurlandanna og Bretlands.
„Vara stjórnvöld á Norðurlöndum og Bretlandi um þessar mundir sérstaklega við ferðum til Gili-eyja og norðvestanverðrar Lombok-eyju. Þessi svæði, sem eru austur af Balí, urðu illa úti í stóra skjálftanum síðastliðna helgi. Þar fórust á þriðja hundrað manns og mikil eyðilegging varð. Í morgun varð svo stór eftirskjálfti á Lombok. Slíkum skjálftum getur fylgt mikil hætta vegna þess að byggingar, vegir og aðrir innviðir eru veikir fyrir eftir stóru skjálftana.
Íslendingar á ferðalögum erlendis geta ávallt leitað til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins komi eitthvað upp á. Sendiskrifstofur Íslands og ræðismenn veita líka borgaraþjónustu þegar þess er óskað,“ er meðal þess sem segir í tilkynningu utanríkisráðuneytisins.