Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur ákveðið að víkja sæti í þjóðsöngsmáli Ríkisútvarpsins og mun Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sinna málinu sem staðgengill hennar. Að sögn Katrínar tók hún þessa ákvörðun á þeim grundvelli að hún hafi komið að málinu á fyrri stigum og vildi tryggja að öll málsmeðferð yrði yfir allan vafa hafin.
„Ég ákvað, í ljósi þess að ég kom að þessu máli á fyrri stigum, að mér fyndist réttast eftir mína umhugsun að víkja sæti og bað Bjarna um að taka þetta mál fyrir mig. Það sem liggur fyrir núna er að taka afstöðu til málsins og hann mun gera það,“ staðfestir Katrín við blaðamann mbl.is.
Það fellur nú í skaut Bjarna að skoða hvort lög hafi verið brotin með notkun þjóðsöngsins í kynningu Ríkisútvarpsins vegna heimsmeistaramótsins í knattspyrnu fyrr í sumar.
Í dagskrárkynningunni, eða eftir atvikum auglýsingum, voru þjóðþekktir einstaklingar fengnir til að lesa upp þjóðsönginn og var Katrín þar á meðal. Í kjölfarið bárust nokkrar kvartanir til forsætisráðuneytisins, en samkvæmt lögum um þjóðsönginn er óheimilt að nota hann í viðskipta- eða auglýsingaskyni.
Var skýringa Ríkisútvarpsins þá aflað í kjölfarið þar sem kom fram að ekki væri litið á myndskeiðið sem auglýsingu heldur dagskrárkynningu sem hafði verið ætlað að skapa stemningu fyrir heimsmeistaramótið.