„Ég er auðvitað mjög ánægð með þessa niðurstöðu, ég hafði alveg eins von á því að fá einhverja sekt eða eitthvað slíkt,“ segir Guðrún Karitas Garðarsdóttir í samtali við mbl.is. Guðrún var sýknuð í héraðsdómi Norðurlands eystra á þriðjudag, en hún var ákærð fyrir að hafa hótað manni lífláti í ágúst 2017.
Guðrún viðurkenndi fyrir dómi að hafa farið á vinnustað mannsins og hótað honum, en ástæða hótunarinnar er sögð að hann hafi staðið í samskiptum við dóttur Guðrúnar og var á þessum tíma grunur um að maðurinn hefði brotið kynferðislega gegn þroskaskertum konum sem hann þjálfaði. Var hann á þessum tíma þjálfari dóttur Guðrúnar.
Maðurinn var ákærður fyrir kynferðisbrot í apríl síðastliðnum.
„Maður getur auðvitað ekki hlaupið um og hótað fólki. Ég gekkst við því að hafa hótað honum, en ég virkilega óttaðist um dóttur mína á þessum tíma, því hann er með sögu og bíðum við eftir niðurstöðu í því máli,“ segir Guðrún.
„Þegar litið er til aðstæðna og þess að augljóst hlýtur að hafa verið að ákærða var í reiðikasti og fjarstætt að hún myndi fylgja orðum sínum eftir,“ segir í greinargerð dómsins. Þá er sagt að atvikið uppfylli ekki skilyrði sem þarf til þess að atvikið teljist refsivert.
Samkvæmt niðurstöðum héraðsdóms var það meðal annars framburður mannsins sem gerði það að verkum að dómari hafi ekki talið hótunina refsiverða. „Samkvæmt framburði brotaþola sjálfs sagði hann í framhaldi af orðum hennar að hún gæti ekki drepið hann.“
„Til þess að hótun sé refsiverð samkvæmt 233. gr. almennra hegningarlaga þarf hún að vera til þess fallin að vekja ótta hjá þeim sem hún beinist að. […] Verður talið ósannað að ákærða hafi með þessum ummælum vakið ótta brotaþola,“ segir í dómi.
„Ég er bara venjuleg móðir sem ætlar ekki að drepa neinn,“ segir Guðrún.
Maðurinn hefur starfað sem boccia-þjálfari á Akureyri og var hann ákærður í apríl fyrir kynferðisbrot. Í ákæru segir að hann hafi átt samræði og önnur kynferðismök við þroskaskerta konu í fjölda skipta árin 2014 og 2015. Maðurinn neitaði sök við þingfestingu í maí.
Samkvæmt ákæru er maðurinn sagður hafa nýtt sér yfirburði sína og aðstöðumun gagnvart konunni, sem er með þroskahömlun og „gat því ekki skilið þýðingu verknaðarins.“ Þá er krafist af hálfu ákæruvaldsins að maðurinn verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.