Styttu Steinunnar stolið

Steinunn Þórarinsdóttir innan um verk sín.
Steinunn Þórarinsdóttir innan um verk sín. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Styttunni Landamæri eða Borders sem var í Baton Rouge í Louisiana í Bandaríkjunum og er eft­ir lista­kon­una Stein­unni Þór­ar­ins­dótt­ur hefur verið stolið.

Fram kemur á fréttamiðlum vestanhafs að styttan vegi rúmlega 181 kíló. Hún hafði verið skorðuð við bekk í miðbæ Baton Rouge, þaðan sem henni var stolið. RÚV greindi frá málinu í morgun.

Hvarf styttunnar kom í ljós nýverið þegar flytja átti hana á annan stað en talið er að henni hafi verið stolið í mars eða apríl. Renee Chatelain, framkvæmdastjóri menningarráðs borgarinnar, vonast til þess að styttunni hafi verið stolið í einhverjum fíflagangi.

Chatelain hefur upplýst Steinunni um þjófnaðinn. Finnist styttan ekki þarf borgin að greiða Steinunni 60 þúsund dollara, um 6,5 milljónir íslenskra króna, í tryggingu.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem verki eftir Steinunni er stoltið. Árið 2011 var listaverkinu Voya­ge eða För, sem staðsett var í Hull í Bretlandi stolið. Verkið var gert til minningar um breska sjómenn á Íslandsmiðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert