Þörf á víðtækari aðgerðum

Ráðhúsið í Reykjavík.
Ráðhúsið í Reykjavík. mbl.is/Ómar

Sjálfstæðisflokkurinn í borgarstjórn telur að fara þurfi í mun öflugri og víðtækari aðgerðir til að leysa það neyðarástand sem ríkir í húsnæðismálum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá flokknum en í dag var haldinn aukafundur velferðarráðs um stöðu heimilislausra í borginni.

Fram kemur að fundurinn hafi ekki skilað þeim árangri sem vænst var. Alls var 8 tillögum stjórnarandstöðuflokkanna vísað til stýrihópa skrifstofu velferðarsviðs eða þeim frestað.

Egill Þór Jónsson.
Egill Þór Jónsson. Ljósmynd/Aðsend

„Til að mynda veldur það miklum vonbrigðum að ekki var unnt að samþykkja tillögu stjórnarandstöðuflokkanna um dagskýli fyrir heimilislausa sem mikil þörf er fyrir,“ segir Egill Þór Jónsson, borgarfulltrúi og fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í velferðarráði Reykjavíkur, í tilkynningunni.

Þar segir einnig að ljós sé að núverandi meirihluti sé fyrst núna að horfast í augu við og viðurkenna vanda heimilislausra og að tillögur meirihlutans séu á algjörum byrjunarreit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert