Sólin komin upp á Fiskideginum mikla

Dalvíkingar opnuðu heimili sín í gærkvöldi fyrir gestum og gangandi …
Dalvíkingar opnuðu heimili sín í gærkvöldi fyrir gestum og gangandi og buðu upp á fiskisúpur. Súpukvöldið er fastur liður í tengslum við Fiskidaginn mikla. Ljósmynd/Atli Rúnar Halldórsson

Fiskidagurinn mikli á Dalvík fer vel af stað að sögn skipuleggjenda og lögreglu en von er á að tugir þúsunda manna verði í bænum í dag þar sem hátíðardagskrá verður á hafnarsvæðinu og í kvöld þegar stórtónleikar Fiskidagsins fara fram. Hátíðahöldin hófust í gærkvöldi þegar Dalvíkingar opnuðu heimili sín fyrir gestum og buðu upp á fiskisúpur, hver eftir sinni uppskrift.

„Þetta gengur hreint rosalega vel. Súpukvöldið var algjörlega geggjað og mikið af gestum komnir í bæinn. Svo er bara dagurinn að byrja, hér er allt á fullu við að undirbúa. Sólin komin upp og þetta lítur vel út. Það vinnur allt með okkur,“ segir Júlíus Júlíusson, framkvæmdastjóri Fiskidagsins. 

Sjálfur Fiskidagurinn verður settur nú kl. 11 og í dag verður að venju mikil hátíðardagskrá á hafnarsvæðinu þar sem gestum er boðið upp á yfir 20 fiskirétti, allt þeim að kostnaðarlausu. 

Líkt og áður segir er von á miklum fjölda manns á Dalvík í dag og í kvöld en síðustu ár hafa verið um 30 þúsund manns á svæðinu þegar mest hefur látið. Júlíus segir erfitt að segja til um hve margir gestir sækja hátíðina í ár. „Ég hef ekki hugmynd um það, við erum bara að venju klár í að taka á móti stórum hópi af gestum en þegar maður selur enga miða þá veit maður aldrei hvað verður. Þetta er ævintýralegt, það er bara þannig.“  

Mikill fjöldi hefur þegar lagt leið sína til Dalvíkur í …
Mikill fjöldi hefur þegar lagt leið sína til Dalvíkur í tengslum við hátíðarhöldin og von er á að töluvert bætist í fjöldann þegar líða tekur á daginn. Ljósmynd/Atli Rúnar Halldórsson

Ökumenn sýni þolinmæði

Í gærkvöldi opnuðu Dalvíkingar heimili sín fyrir gestum og gangandi og buðu upp á fiskisúpur á svokölluðu súpukvöldi sem er haldið ár hvert. Að sögn lögreglunnar á svæðinu hefur allt gengið vel fyrir sig. 

Stórtónleikar Fiskidagsins hefjast kl. 21:45 á hafnarsvæðinu og má búast við að þeir verði glæsilegir að vanda, en þeim lýkur með flugeldasýningu í kring um miðnætti. Margir koma akandi til þess að vera viðstaddir hátíðardagskrá í dag en halda svo heim á leið eftir tónleikana. Lögreglan á Dalvík vill biðla til fólks að sýna þolinmæði og halda ró sinni þegar það ekur frá bænum í kvöld þar sem viðbúið er að mikil umferð verði út úr bænum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka