Vill breyta „kjánalegum“ lögum um þjóðsöng

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér finnst þetta kjánalegt og mér finnst að við eigum að losa okkur við svona vitleysu,“ segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, í samtali við mbl.is um ákvæði laga um þjóðsöng Íslendinga. Helgi vinnur nú að frumvarpi til breytinga á lögunum og stefnir á að leggja það fram snemma í haust.

Tilefnið eru fréttir þess efnis að Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, ætli að víkja sæti í máli sem varðar notkun RÚV á þjóðsöngnum. Í dagskrárkynningu RÚV fyrr í sumar voru þjóðþekktir aðilar fengnir til að lesa upp þjóðsönginn, þ.á.m. Katrín. Verið er að skoða hvort að það hafi brotið gegn lögum.

Brot á lögunum geta varðað allt að tveggja ára fangelsi.
Brot á lögunum geta varðað allt að tveggja ára fangelsi. Skjáskot/Alþingi

Brot varða fangelsi allt að tveimur árum

Í 3.-6. gr. laga um þjóðsöng Íslendinga kemur m.a. fram að ekki megi flytja eða birta þjóðsönginn í annarri mynd en hinni upprunalegu og ekki sé heimilt að nota hann í viðskipta- eða auglýsingaskyni. Brot gegn ákvæðum laganna varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Í lögunum er gert ráð fyrir því að forsætisráðherra skeri úr um ágreining um rétta notkun þjóðsöngsins.

Helgi Hrafn ætlar að leggja til að 3.-6. gr. laganna verði felldar brott og vinnur nú að rökstuðningi þess efnis. „Mér finnst þetta fáránlegt. Í upprunalega frumvarpinu er ekkert rökstutt um þetta, aðeins að það beri að vernda hann,“ segir Helgi Hrafn.

„Mitt álit er að þetta verndi ekkert þjóðsönginn. Ég er ósammála því að það sé óvirðing fólgin í því að leika sér aðeins með þjóðsönginn, t.d. að birta hann eða flytja aðeins öðruvísi. Þvert á móti er það virðing ef eitthvað er,“ segir hann einnig.

„Ofan á það finnst mér að það eigi ekki að vera refsivert með sektum eða fangelsi. Jafnvel þó að fólki finnist það óvirðing,“ bætir hann við.

Brýtur gegn tjáningarfrelsi

Þá telur Helgi Hrafn að ákvæði laganna feli í sér brot á tjáningarfrelsisákvæðum stjórnarskrárinnar.

„Þetta eru klárlega tálmanir á tjáningarfrelsi. Að það sé verið að segja fólki hvað megi syngja. Það er mjög ákveðin skilyrði sem slíkar tálmanir þurfa að uppfylla og ég fæ ekki séð að þetta uppfylli þau skilyrði,“ segir Helgi Hrafn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert