Hvalatorfa innlyksa í Kolgrafafirði

Björgunarsveitin að störfum í Kolgrafafirði.
Björgunarsveitin að störfum í Kolgrafafirði. mbl.is/Alfons Finnsson

Hátt í eitt hundrað grindhvalir eru núna innlyksa í Kolgrafafirði. Björgunarsveitin Klakkur frá Grundarfirði er á svæðinu og reynir að reka hvalina undir brúna og koma þeim út úr firðinum. Þær aðgerðir hafa ekki borið árangur hingað til.

„Þeir ráða ekki við strauminn undir brúnni. Það er ofboðslegur straumur,“ segir Alfons Finnsson, fréttaritari mbl.is á staðnum.

„Það gekk fínt áðan að reka þá en svo sneru þeir við um leið og þeir komu að brúnni af því að þá kom straumurinn á móti þeim,“ segir Einar Strand, formaður svæðisstjórnar hjá Landsbjörg á Snæfellsnesi, í samtali við mbl.is.

Hér má sjá hvalatorfuna sem um ræðir.
Hér má sjá hvalatorfuna sem um ræðir. mbl.is/Alfons Finnsson

Beðið verður með frekari björgunaraðgerðir þangað til að það byrjar að flæða út úr firðinum. Reiknað er með því að aðgerðir hefjist aftur milli klukkan 20 og 21.

„Það er ekki hægt að reka þá út fyrr en það snýst á fallinu. Þeir fara ekki undir brúna nema á meðfalli. Það er enn þá aðfall og þeir eru fyrir innan brú þannig að við sjáum það ekki fyrr en það fer að falla út hvort við náum að koma þeim út fyrir,“ útskýrir Einar sem telur að hvalirnir ráði við strauminn en að þeir vilji einfaldlega ekki synda í gegnum hann.

mbl.is/Alfons Finnsson

„Þeir ráða við hann. Þeir vilja bara ekki fara í hann. Við erum alla vega að vona að það sé málið að þegar það fari að flæða út gefi þeir í,“ segir Einar.

mbl.is/Alfons Finnsson

Engin hætta er á ferðum eins og er að mati Einars. „Ekki sem stendur en maður veit aldrei hvað gerist. Það er enginn þeirra strandaður enn þá,“ segir hann og bætir við að ekki þurfi að hafa áhyggjur af súrefnisskorti inni í firðinum.

Uppfært klukkan 20:20.

Búið er að reka hvalina út fyrir Kolgrafafjarðarbrú. „Þeir eru farnir en við þurfum að reka þá lengra út, þetta er ekkert búið. Þeir eru komnir 50 metra út fyrir brú núna. Straumurinn hjálpaði til,“ segir Einar Strand. 

mbl.is/Alfons Finnsson
mbl.is/Alfons Finnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert