Noti ekki illgresiseyði án nauðsynjar

Illgresiseyðirinn Roundup hefur m.a. verið notaður á undanförnum árum til …
Illgresiseyðirinn Roundup hefur m.a. verið notaður á undanförnum árum til þess að eyða lúpínu í náttúru Íslands. Glýfosfat er að finna í flestum illgresiseyðum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, segir að afgerandi ákvarðanir verði ekki teknar hér á landi um lögmæti illgresiseyða sem innihalda glýfosat fyrr en niðurstöður viðeigandi stofnana í Evrópu verði leiddar í ljós um svokallað Roundup-mál. Umhverfisstofnun hvetur fólk, eins og áður, til þess að draga úr eða hætta notkun á illgresiseyði að nauðsynjalausu.

Mons­anto, stærsti efna­fram­leiðandi til land­búnaðar í Banda­ríkj­un­um, hef­ur verið dæmt af dómstól í Kaliforníu til þess að greiða manni 289 millj­ón­ir dala, sem sam­svar­ar rúm­um 30 millj­örðum kr., í skaðabæt­ur. Maður­inn hélt því fram að hann hefði fengið krabba­mein eft­ir að hafa notað plöntu­eyðinn Roundup sem inni­hélt glý­fosat. Monsato hyggst áfrýja dóminum.

Efnið umdeilt innan Evrópusambandsins

Notkun glýfosats hefur verið afar umdeild síðustu ár og mikið deilt um lögmæti efnisins innan Evrópusambandsins. Aðildarríki Evrópusambandsins felldu leyfi til notkunar glýfosats úr gildi á síðasta ári en kosningunni var áfrýjað til framkvæmdastjórnar sambandsins sem tók ákvörðun um að leyfa notkun efnisins innan sambandsins áfram næstu fimm árin. 

„Þessi dómur í Bandaríkjunum hefur í sjálfu sér ekkert lagalegt gildi hér á landi. Það er samevrópskt regluverk hér í gildi og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tók ákvörðun í nóvember síðastliðnum um að heimila notkun glýfosats næstu fimm ár eftir mjög ítarlega úttekt og áhættumat sem var framkvæmt af Þjóðverjum,“ segir Kristín Linda í samtali við mbl.is.

Fylgjast með framvindu málsins hjá lykilstofnunum

Kristín Linda segir að í kjölfarið hafi verið gefin út sérstök álit sem studdu niðurstöðu framkvæmdastjórnarinnar. „Álitin voru gefin út bæði af matvælaöryggisstofnun Evrópu og Efnastofnun Evrópu þar sem menn tóku undir niðurstöðu áhættumatsins. Við munum  fylgjast með málinu en gerum ekki ráð fyrir því að það heyrist neitt frá þessum lykilstofnunum í Evrópu fyrr en eftir helgi.“

Umhverfisstofnun hvetur fólk til þess að draga úr notkun eða hætta notkun á illgresiseyði, enda segir Kristín Linda það mikilvægt markmið að draga úr notkun á illgresiseyðum almennt. Betri leið sé hreinlega að reyta arfann með handafli eða beita öðrum aðferðum þar sem efni eru ekki notuð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka