Hvalirnir komnir úr Kolgrafafirði

Frá aðgerðum björgunarsveitarinnar.
Frá aðgerðum björgunarsveitarinnar. mbl.is/Alfons Finnsson

Hvalatorfan sem var innlyksa í Kolgrafafirði er nú komin úr firðinum og björgunaraðgerðum því lokið í bili. 

„Við rákum þá vel út fjörðinn en svo hættu þeir að rekast þarna aðeins utar og fóru að synda og stinga af þannig að við létum þá eiga sig og ætlum að sjá hvað þeir gera,“ segir Ein­ar Strand, formaður svæðis­stjórn­ar hjá Slysavarnafélaginu Lands­björg á Snæ­fellsnesi, í sam­tali við mbl.is. 

Einn tók af skarið

„Við biðum eftir fallaskiptunum og vorum reyndar ekki farnir að reka þá, heldur vorum í aðhaldi við brúna, þegar allt í einu einn tók sig til og steypti sér undir brúna og þar með var þetta komið. Hinir fylgdu á eftir,“ útskýrir Einar.

„Hann leiddi hjörðina, það er oft svoleiðis, það þarf ekki nema einn. Líka ef einn snýr við þá stoppar maður þá ekki. Það er mikil hjarðhegðun í þessum dýrum,“ bætir hann við.

Virtust vera að leika sér

Einar segist ekki vita hvað hvalirnir hafi viljað inn í fjörðinn en þeir virtust að hans sögn vera að leika sér enda syntu þeir í hringi og busluðu mikið. Mögulegt sé þó að þeir hafi verið að leita sér að æti.

Björgunarsveitarmenn fylgdust vel með og pössuðu að hvalirnir færu ekki of nálægt landi. „Það var smá hætta á einum tímapunkti en strákarnir redduðu því strax. Þeir voru komnir aðeins of nálægt landi 2-3 hvalir,“ segir Einar.

Hvalirnir virtust vera að leika sér. Þeir syntu í hringi …
Hvalirnir virtust vera að leika sér. Þeir syntu í hringi og busluðu mikið. mbl.is/Alfons Finnsson

Ekki verður fylgst sérstaklega með hvölunum og hvort þeir fari aftur inn í fjörð. „Þetta verður að hafa sinn gang. Ég sá aðra hvalavöðu hérna aðeins innar en hún var reyndar ekki í neinni hættu. Hún er stærri en þessi,“ segir Einar sem telur að milli 30 og 60 grindhvalir hafi verið innlyksa í Kolgrafafirði í kvöld.

Talið er að hvalirnir hafi verið milli 30 og 60 …
Talið er að hvalirnir hafi verið milli 30 og 60 talsins. mbl.is/Alfons Finnsson
Mikill mannfjöldi safnaðist saman og fylgdist með hvölunum.
Mikill mannfjöldi safnaðist saman og fylgdist með hvölunum. mbl.is/Alfons Finnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert