Flytja þurfti lögreglukonu með sjúkrabíl á Landspítalann eftir að maður veittist að lögreglu á gatnamótum Grensásvegar og Miklubrautar nú rétt fyrir hádegi.
Að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gekk maðurinn á milli bíla á götunni í annarlegu ástandi. Þegar lögregla reyndi að stoppa hann veittist hann að henni með þeim afleiðingum að a.m.k. ein lögreglukona slasaðist. Var hún flutt alblóðug á slysadeild, en ekki liggur fyrir hversu alvarleg meiðslin eru.
Fjöldi vitna var að atvikinu og reyndi eitt þeirra að koma lögreglu til aðstoðar vegna meiðslanna.
Maðurinn var handsamaður og er vistaður í fangageymslum lögreglunnar.
Uppfært kl. 13:16
Eftirfarandi tilkynning hefur borist frá lögreglunni í tengslum við málið:
„Nú skömmu fyrir hádegi var tilkynnt um mann í annarlegu ástandi á Grensásvegi. Er lögregla kom á vettvang brást maðurinn ókvæða við afskiptum lögreglu og veittist að þeim. Í átökunum féllu lögreglumennirnir og maðurinn í götuna með þeim afleiðingum að annar lögreglumannanna skall harkalega með höfuðið í götunni og vankaðist við það. Hann var í framhaldi fluttur með sjúkrabifreið á Slysadeild til aðhlynningar og er þar ennþá til skoðunar.
Maðurinn var handtekinn og færður í fangageymslur lögreglunnar.“