Forstjórinn segir völd sín ofmetin

Alberto Pototsching, forstjóri Evrópsku orkustofnunarinnar ACER, segir valdheimildir stofnunarinnar ofmetnar …
Alberto Pototsching, forstjóri Evrópsku orkustofnunarinnar ACER, segir valdheimildir stofnunarinnar ofmetnar og að meginhlutverk hennar sé að miðla málum þegar verður ágreiningur. Hann segir henni ekki falið yfirþjóðlegt vald. mbl.is/Hari

Valdheimildir orkustofnunar Evrópu, ACER, eru ofmetnar, segir Alberto Pototschnig, forstjóri ACER, í samtali við blaðamann mbl.is. „Það er mjög mikilvægt að taka umræðuna, það er auðvitað stórt skref að taka þátt í innri orkumarkaði Evrópu. Þessi umræða verður þó að byggja á réttum upplýsingum,“ segir hann.

Forstjórinn kom hingað til lands til þess að taka þátt í málþingi lagadeildar Háskólans í Reykjavík um orkumál og EES-samningin sem haldið var í dag. Tilefni málþingsins er hinn svokallaði þriðji orkupakki Evrópusambandsins sem stendur til að leggja fyrir Alþingi í haust, en hann hefur sætt gagnrýni að undanförnu.

Segist ekki vera „stóri bróðir“

„Stofnunin tekur aðeins ákvarðanir þegar eftirlitsstofnanir ríkjanna eru ekki sammála. Það verður að vera einhver sem sker úr í deilumálum og tryggir málamiðlun milli aðila og það er hlutverk okkar. Við erum enginn stóri bróðir með yfirþjóðlegt vald. Við erum ekki að grípa fyrir hendurnar á þessum eftirlitsaðilum, við erum að hjálpa þeim,“ segir Pototschnig.

Pototschnig segir stofnunina gefa út álit ef grunur er um að ekki sé verið að fylgja reglum Evrópusambandsins. Eftir slíka útgáfu hefur umrætt ríki fjóra mánuði til þess að gera viðeigandi ráðstafanir.

Hafi ekki verið orðið við beiðni stofnunarinnar fer málið til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem sér um að tryggja að ákvæðum sambandsins sé framfylgt. Hins vegar ef það snýr að deilum milli aðila þá hafi ACER úrskurðarheimildir þegar ekki gengur að sætta deiluaðila, staðhæfir forstjórinn.

Vafi um sjálfstæða ákvarðanatöku

Þriðji orkupakki Evrópusambandsins hefur meðal annars verið gagnrýndur fyrir að ákvarðanir er varða íslensk málefni verði færðar til stofnunarinnar ACER sem Ísland á ekki aðild að. Hefðbundið er innan EES að eftirlit og ákvarðanir sem snúa að Evrópulöggjöf sé hjá stofnunum EFTA, sem Ísland á aðild að. Þessu hlutverki gegna hins vegar stofnanir ESB í tilfelli aðildarríkja sambandsins og er því talað um að innan Evrópska efnahagssvæðisins séu tvær stoðir, ein fyrir EFTA-EES-ríkin og önnur fyrir aðildarríki Evrópusambandsins.

Spurður hvernig sé hægt að leysa þann vanda að ACER muni hugsanlega hafa valdheimildir utan tveggja stoða kerfisins, svarar Pototschnig að það sé ekki hans að leysa þann vanda og að hann geti ekki sagt hvernig það ætti að vera.

Hann vísar þó til samstarfs ESB og ríkja utan sambandsins sem eru hluti af sameiginlegum orkumarkaði Evrópu (e. European Energy Community) og segir það eitt dæmi um að hægt sé að finna lausnir.

Samkvæmt Pototschnig hafa þau ríki sem eru utan ESB sett upp eigið kerfi til þess að sinna eftirliti, en orkustofnunin skerst í leikin þegar ekki gengur að leysa deilur. „Ef það á að vera sameiginlegur orkumarkaður verður að vera einhver úrskurðaraðili,“ segir hann.

Málþingið var fjölsótt og sótti Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, iðnaðar- …
Málþingið var fjölsótt og sótti Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarmálaráðherra, fundinn. mbl.is/Hari

„Ég er ekki endilega að segja að þetta sé besta lausnin fyrir Ísland, en þetta hefur gengið í samstarfi við önnur ríki. Það væri vissulega hægt að hafa fjölþjóðlegan vettvang, en það er ekki endilega besta leiðin til þess að leysa deilur,“ segir forstjórinn.

Á málþinginu í dag hélt Henrik Bjørnebye, prófessor við lagadeild Háskólans í Ósló, erindi og kom fram í kynningu hans að í tilfelli Noregs, sem þegar hefur samþykkt þriðja orkupakkann, séu það stofnanir EFTA sem sinna eftirliti og taka ákvarðanir. Hins vegar benti hann á að í því samhengi byggja ákvarðanir á drögum að úrskurði sem rituð eru af ACER. „Það er augljós vafi um hversu sjálfstæð ákvarðanataka stofnana EFTA er að þessu leyti,“ sagði hann.

Sæstrengur hækkar verð til neytenda

„Ég vona að það sé enn í skoðun að tengja Ísland við evrópskan orkumarkað, með þessum Icelink. Það eru örugglega skiptar skoðanir um ágæti þess, en svona tengingar milli kerfa sem hafa ólíkar þarfir eykur hagkvæmni töluvert. Það eru samt ákveðnir þættir sem þarf að hafa í huga svo sem að útflutningsríki mun líklega sjá fram á verðhækkanir,“ segir Pototschnig spurður um mögulega tengingu Íslands við evrópskan orkumarkað.

„Orkuframleiðendur munu fá hærra verð fyrir afurðina og neytendur munu þurfa að borga meira, en það eru mörg dæmi þess að ríki hafa komið til móts við neytendur,“ bætir hann við.

Kristín Haraldsdóttir lektor.
Kristín Haraldsdóttir lektor. mbl.is/Hari

Kristín Haraldsdóttir, lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, sagði í sínu erindi á málþinginu að Ísland væri undanskilið mörgum ákvæðum þriðja orkupakkans. Þær undanþágur eru hins vegar skilyrtar að sögn hennar.

Þá sagði hún meginskilyrðið vera að Ísland væri ekki tengt evrópskum orkumarkaði sem gerir sæstreng úrslitaatriði sem ræður hvort stór hluti löggjafarinnar öðlist gildi hér á landi, hafi tilskipunin verið innleidd annars vegar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert