25 manns vinna að því að reka grindhvalavöðuna, sem hefur haldið sig innan brúar í Kolgrafafirði, annan daginn í röð.
„Þeir voru að fara út fyrir brúna og nú á að reyna að reka þá svolítið langt út, mun lengra út á fjörð en við fórum með þá í gær. Svo verðum við að vona það besta,“ segir Einar Strand, formaður svæðisstjórnar Landsbjargar á Snæfellsnesi, í samtali við mbl.is.
Einar er vongóður um að ætlunarverkið takist þar sem aðalvandinn felst í að reka hvalina undir brúna, sem tókst rétt í þessu. „En það er voða erfitt að eiga við þá ef þeir ætla sér eitthvað,“ segir Einar um grindhvalina.
22 björgunarsveitarmenn og þrír lögreglumenn á fjórum bátum sjá um að reka hvalina út úr firðinum og gengur aðgerðin hægt en örugglega, að sögn Einars og vonast hann til þess að búið verði að reka hvalina nógu langt út úr firðinum um miðnætti.
Engin vakt verður á svæðinu í nótt. „Við getum ekki lagt það á mannskapinn,“ segir Einar. Ef grindhvalavaðan leitar aftur inn í fjörðinn á morgun verður staðan einfaldlega metin á ný.