Grindhvalavaðan sem björgunarsveitarmenn ráku úr Kolgrafafirði í gær kom aftur inn fjörðinn í morgun og hefur haldið sig þar í dag. Ekki er búið að ákveða hvort þeir verði reknir úr firðinum í kvöld.
„Þeir eru bara hérna,“ segir Einar Strand, formaður svæðisstjórnar Landsbjargar á Snæfellsnesi, í samtali við mbl.is.
Talið er að torfan telji um eða yfir 60 dýr og sumir álíta að hætta sé á að hvalirnir séu áttavilltir og gætu synt upp í fjöruna og strandað þar.
„Það er ekkert búið að ákveða hvort eigi að gera eitthvað eða hvað á að gera,“ segir Einar og bætir við að hvalirnir séu ekki í neinni hættu.
„Það strandaði einn áðan sem var ýtt út og tveir í gær. Það er það eina sem hefur gerst. Þeir eru ekkert að ganga á land en ég held að þeir sem strönduðu hafi gert það fyrir hálfgerðan misskilning. Það er ekki eins og torfan sé að koma í land.“