Hvalatorfan sem hefur verið innlyksa í Kolgrafafirði frá því á sunnudag er horfin sjónum björgunarsveitarmanna. Um tíuleytið í gærkvöldi voru hvalirnir reknir undir brúna og vel út á Breiðafjörð fram hjá Oddbjarnarskeri um 15 kílómetrum austur af Flatey, þaðan sem þeir tóku stefnuna norðvestur.
Einar Strand, formaður svæðisstjórnar hjá Landsbjörg á Snæfellsnesi, segir að björgunin hafi gengið vel. Aðgerðum lauk skömmu fyrir miðnætti í gær en 22 björgunarsveitarmenn og þrír lögreglumenn tóku þátt.
„Síðan hefur ekkert spurst til hvalanna,“ segir Einar en bætir við að björgunarsveitir séu til taks ef hvalirnir snúa aftur.