Lækka laun bæjarstjóra Garðabæjar

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ.
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ. Ljósmynd/Aðsend

Bæjarráð Garðabæjar samþykkti á fundi sínum í gær að lækka laun Gunnars Einarssonar bæjarstjóra. Eftir að Gunnar tók sæti sem bæjarfulltrúi í kjölfar sveitarstjórnarkosninga sagðist hann líklega ætla að afþakka laun sem fylgdu þeirri stöðu. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum er það óheimilt og voru bæjarstjóralaun hans því lækkuð. Heildarlaun Gunnars eru kr. 2.213.799 á mánuði. Fréttablaðið greindi frá í morgun.

Rúmlega 26 milljónir á ári

Samkvæmt ráðningarsamningi sem mbl.is hefur undir höndum mun Gunnar fá kr. 1.282.000 í föst grunnlaun á mánuði frá Garðabæ. Garðabær mun einnig greiða honum fasta mánaðarlega yfirvinnu sem miðast við 55 klst. á mánuði, samtals kr. 732.246. Þá útvegar sveitarfélagið Gunnari Toyota Land Cruiser-bifreið til afnota og greiðir af henni allan rekstrarkostnað.

Auk þess fær Gunnar laun vegna stöðu sinnar sem bæjarfulltrúi og nema þau kr. 199.553 á mánuði. Gunnar fær því samtals kr. 2.213.799 í laun á mánuði auk bifreiðahlunninda eða samtals kr. 26.565.588 á ári.

Á síðasta ári fékk Gunnar kr. 27.461.048 í laun vegna stöðu sinnar sem bæjarstjóri. Lækkunin nemur því samtals kr. 895.460 á ári. Þess má geta að til viðbótar við það þáði hann laun sem varamaður í bæjarstjórn sem námu kr. 507.104 á árinu 2017.

Fólk með há laun getur séð um að koma sér í og úr vinnu

Ingvar Arnarson, bæjarráðsfulltrúi Garðabæjarlistans, sat einn hjá í atkvæðagreiðslu um kjör bæjarstjóra á fundinum í gær. Honum finnst laun bæjarstjóra of há og óþarfi sé að Garðabær útvegi bæjarstjóra bifreið til afnota.

„Þegar fólk er með þetta há laun þá getur það séð um að koma sér í og úr vinnu. Þannig að við gerðum athugasemd við bifreiðahlunnindin,“ segir Ingvar í samtali við mbl.is.

Bæjarfulltrúar Garðabæjarlistans ætla að flytja tillögu á bæjarstjórnarfundi á morgun um að bifreiðaliðurinn í ráðningarsamningi Gunnars verði felldur út. Ef það verður ekki samþykkt ætla bæjarfulltrúarnir að leggja til að valinn verði umhverfisvænni kostur sem samgöngutæki fyrir bæjarstjóra.

Ingvar Arnarson, bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans.
Ingvar Arnarson, bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert