Nota stór orð til að „dreifa athyglinni“

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík.
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík. mbl.is/Arnþór

Eyþór Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir það fjarri sannleikanum að fulltrúar flokksins í skipulags- og samgönguráði Reykjavíkur hafi sett á svið „eitthvert leikrit“ þegar þeir gengu af fundi ráðsins í morgun.

Fram kom í til­kynn­ingu frá Sjálf­stæðflokkn­um fyrr í dag að full­trú­ar flokks­ins hafi ákveðið að víkja af fund­in­um vegna þess að þeir telji að ekki hafi verið staðið rétt að boðun fund­ar­ins og hann hafi því verið ólög­mæt­ur.

„Sigurborg [Ósk Haraldsdóttir] formaður talar um að þetta sé leikrit af okkar hálfu og borgarfulltrúi Samfylkingarinnar [Krist­ín Soffía Jóns­dótt­ir] talar um að við höfum gerst sek um trúnaðarbrot. Hvort tveggja er fjarri sannleikanum og oft þegar fólk grípur til stórra orða þá er það að reyna að dreifa athyglinni eitthvað annað,“ segir Eyþór.

Sig­ur­borg sagði fyrr í dag að lög­mæti fund­ar­ins færi ekk­ert á milli mála og lög­fræðing­ar, bæði sviðsins og hjá miðlægri stjórn­sýslu, hefðu staðfest það.

Eyþór segir að þeir lögfræðingar sem hann hafi rætt við á sveitarstjórnarsviði séu á annarri skoðun. „Lögfræðingar sem starfa ekki fyrir ríki og borg, sem er aðili málsins, voru á öðru máli um lögmæti fundarins.“

Sigurborg sagði að við upphafi fundar hafi hún greint frá því að málum sem væru afgreidd á fundinum yrði frestað ef þess væri óskað. Eyþór segir hins vegar að það hafi verið gert eftir að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins bókuðu ólögmæti og höfðu sagt að þeir tækju ekki þátt í fundinum.

„Það finnst mér algjörlega sanna það að þau efuðust sjálf í hjarta sínu um að fundurinn væri lögmætur,“ segir Eyþór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert