Ráðherra segir notkun glýfosats óæskilega

Ráðherra segir æskilegt að stuðla að minni efnanotkun í daglegu …
Ráðherra segir æskilegt að stuðla að minni efnanotkun í daglegu lífi og sterk efni séu ekki notuð að nauðsynjalausu. mbl.is/​Hari

„Af varúðarsjónarmiðum er notkun glýfosats óæskileg að mínu mati og ég er þeirrar skoðunar að sem minnst eigi að nota af slíkum efnum. Ég hvet fólk því til að hætta notkun þess og hið minnsta að draga úr henni,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is. Erindið var afstaða ráðherra til notkunar glýfosats í tilefni mikillar umræðu sem hefur skapast í tengslum við svokallað Roundup-mál. 

Mons­anto, stærsti efna­fram­leiðandi til land­búnaðar í Banda­ríkj­un­um, hef­ur verið dæmt af dóm­stól í Kali­forn­íu til þess að greiða manni 289 millj­ón­ir dala, sem sam­svar­ar rúm­um 30 millj­örðum kr., í skaðabæt­ur. Maður­inn hélt því fram að hann hefði fengið krabba­mein eft­ir að hafa notað plöntu­eyðinn Roundup sem inni­hélt glý­fosat. Monsato hyggst áfrýja dóm­in­um.

Sala á sterkari lausn af glýfosati er bönnuð hér á landi að sögn ráðherra og bann við markaðssetningu slíkrar lausnar tók gildi um síðustu áramót. Þó eru ýmsir illgresiseyðar seldir á almennum markaði á Íslandi sem innihalda glýfosat, svo sem efnið Roundup. 

Noti frekar aðferðir sem ekki þurfi efni til

Ráðherra segir mikilvægt að fólk hugsi um hvaða efni það notar og spyrji sig að því hvort sú notkun sé nauðsynleg, hvort sem um sé að ræða illgresiseyði, hreinsiefni, skordýraeitur eða önnur skaðleg efni. 

Guðmundur bendir á að í aðgerðaáætlun sem ráðuneytið gaf út í ágúst 2016 sé m.a. lögð áhersla á að áfram verði unnið markvisst að því að taka upp varnaraðgerðir gegn skaðvöldum í landbúnaði og garðyrkju sem ekki byggjast á notkun efna, þar á meðal að notast við samþættar varnir í baráttu við skaðvalda. Þá reyni hið opinbera að draga úr notkun plöntuverndarvara með því að taka upp aðferðir sem ekki byggist á notkun efna. 

Eiturefni skuli ekki notuð að nauðsynjalausu

Aðspurður hvort Roundup-dómurinn og umfjöllun honum tengd gefi ráðuneytinu tilefni til þess að fjalla frekar um notkun glýfosats segir ráðherra að stefna ráðuneytisins hafi verið sú að notað sé sem minnst af svokölluðum plöntuverndarvörum. Þar á meðal sé illgresiseyðir. 

„Við höfum markað okkur aðgerðaáætlun um notkun varnarefna og lagt áherslu á að þau séu ekki notuð að nauðsynjalausu. Það er mikilvægt að fylgjast vel með þessum málum, bæði nú og næstu árin. Það er skoðun ráðherra að eiturefni eigi að nota sem allra minnst og alls ekki að nauðsynjalausu.“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. mbl.is/Valli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka