„Ég var búinn að búa mig undir þetta í huganum svo það kom mér ekkert mikið á óvart. Það er afskaplega skemmtilegt að finna hvernig þetta rættist. Það er merkilegt að henda sér út og fara upp í 200 km hraða fallhlífarlaus í byrjun og finna ekkert fyrir brjóstinu eða neitt. Ljómandi huggulegt,“ segir Páll Bergþórsson, fyrrverandi veðurstofustjóri og ef til vill elsti Íslendingurinn til að kasta sér út úr flugvél í fallhlífarstökki.
Páll stökk í dag með Hirti Blöndal hjá fyrirtækinu Skydive Iceland og var farið frá flugvellinum á Hellu. Þá tók Jón Ingi Þorvaldsson það að sér að mynda herlegheitin.
Bergþór, sonur Páls, segir að áhugi föður hans á að fara í fallhlífarstökk hafi kviknað eftir að hann hafi sjálfur stokkið með eiginmanni sínum.
„Við Albert, maðurinn minn, fórum í fallhlífarstökk um daginn. Pabbi keyrði okkur. Þá fannst honum upplagt að fara á 95 ára afmælisdaginn, 13. ágúst. Þá viðraði ekki vel og það frestaðist. En í dag var gott veður.“