Eignir fyrir 490 milljónir kyrrsettar

Sigur Rós á tónleikunum Norður og niður.
Sigur Rós á tónleikunum Norður og niður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kröfu þriggja liðsmanna Sigur Rósar um að felld yrði úr gildi kyrrsetning sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á eignum þeirra til tryggingar á greiðslu á væntanlegum skattkröfum, samtals að upphæð um 800 milljónir króna, var hafnað í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku. Var kyrrsetningin gerð að kröfu tollstjóra, en meint skattabrot þremenninganna hafa verið í rannsókn frá því í janúar 2016 og nær til tekjuáranna 2010-2014.

Meint brot talin mjög alvarleg

Fyrst var greint frá málinu í Fréttablaðinu í morgun, en úrskurðirnir voru í dag allir birtir á vef héraðsdóms. Kemur þar fram að skattayfirvöld telji meint brot mjög alvarleg sem falli undir 262. grein almennra hegningarlaga, en brot á þeirri grein varða allt að sex ára fangelsi, eða fésekt.

Stærsta væntanlega skattkrafan er á hendur Jóni Þór Birgissyni, eða Jónsa eins og hann er jafnan kallaður. Fram kemur að áætluð krafa á hann sé 638 milljónir króna. Voru fjórar fasteignir í hans eigu og 50% hlutur í þremur öðrum fasteignum kyrrsettar. Samkvæmt úrskurðinum er verðmæti þeirra samtals 394 milljónir. Þá voru bankainnistæður fyrir 10,6 milljónir kyrrsettar, tvö bifhjól, tveir bílar og eignarhlutar í þremur félögum.

Í úrskurðinum segir að þær eignir séu „óverulegar í hinu stóra samhengi en kyrrsettar bankainnstæður nema um 10.600.000 króna og verðmæti í ökutækjum, þ.e. tveimur bifhjólum og tveimur bifreiðum, skiptir augljóslega engum sköpum hér.“

Í tilfellum þeirra Georgs Holm og Orra Páls Dýrasonar eru eignir upp á 40-43 milljónir kyrrsettar fyrir væntanlegum kröfum upp á 78,5 og 82 milljónir. Samtals nær kyrrsetningin því til eigna upp á um 490 milljónir hjá þremenningunum.

Þremenningarnir gagnrýna kyrrsetninguna

Þremenningarnir segjast hafa fjárfest í kostnaðarsamri ráðgjöf sérfræðinga á sviði skattskila og endurskoðunar til að sjá um uppgjör sín og fjármál og alla tíð lagt áherslu á að rétt væri staðið að skattskilum þeirra. Það hafi því komið á óvart þegar skattrannsóknarstjóri hóf rannsóknina á sínum tíma.

Samkvæmt tollstjóra eru mögulegar skattkröfur á þremenningana um 800 milljónir, …
Samkvæmt tollstjóra eru mögulegar skattkröfur á þremenningana um 800 milljónir, þar af 638 milljónir á söngvarann Jónsa. mbl.is/ Eggert Jóhannesson

Þá gagnrýna þeir kyrrsetninguna á þeim forsendum að eignirnar hafi aukist að verðgildi síðan þær voru fyrst kyrrsettar og að verðmæti kyrrsettra eigna sé umfram þá fjárhæð sem mögulegt skattbrot sé. Dómarinn hafnaði þessu og sagði að eignirnar væru þess eðlis að auðvelt væri að koma þeim undan vakni ásetningur til þess og ekki hafi verið sýnt fram á að eignirnar séu umfram mögulega skattkröfu eða að þremenningarnir ættu frekari eignir til tryggingar kröfunni.

Fluttu fjármuni til landsins í gegnum fjárfestingaleiðina

Þó kemur fram að þeir hafi flutt fjármuni árið 2013 til landsins til að fjárfesta í fasteignum í gegnum fjárfestingaleið Seðlabankans, hafi þeir auk þess mikil tengsl við útlönd og stærstan hluta tekna sinna þaðan í gegnum hlutdeild sína í erlendum félögum. Bendir tollstjóri á að þremenningarnir hafi ekki gert grein fyrir eign sinni í öllum erlendu félögunum á skattframtölum sínum, en þær upplýsingar hafi komið fram undir rannsókn málsins hjá skattrannsóknarstjóra.

Tollstjóri telur hættu á að verðmæti verði flutt úr landi

Telur tollstjóri að líkur séu á að þremenningarnir muni flytja fjármuni úr landi séu eignir þeirra ekki kyrrsettar. „Áður en fjármunir sóknaraðila hafi verið fluttir til landsins í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands hafi þeir verið varðveittir erlendis. Í ljósi þess sé ekki ólíklegt að enn séu til staðar eignir erlendis sem innlendir kröfuhafar geti ekki gengið að. Sóknaraðili hafi slík tengsl við útlönd að hætta sé á að verðmæti verði flutt þangað sem innheimta muni reynast að mun erfiðari,“ eins og segir í rökstuðningi tollstjóra í úrskurðinum.

Eins og fyrr segir komst dómari að þeirri niðurstöðu að staðfesta kyrrsetningu sýslumannsins í öllum þremur tilfellunum. Haft er eftir lögmanni þremenninganna í Fréttablaðinu í morgun að niðurstöðunni verði áfrýjað til Landsréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert