Leita svara vegna morgunkorns

Efnið glýfosat hefur mælst í ýmsum kornvörum stórra fyrirtækja. Þar …
Efnið glýfosat hefur mælst í ýmsum kornvörum stórra fyrirtækja. Þar á meðal vel þekktra vörumerkja sem einnig eru á Íslandi. Innflytjendur bíða viðbragða framleiðenda. Kristinn Ingvarsson

Nói Síríus, Ölgerðin og Nathan og Oslen hf., sem flytja morgunkorn og aðrar kornvörur frá Kelloggs, Quaker og General Mills til Íslands, segjast hafa haft samband við framleiðendur í morgun til þess að fá frekari upplýsingar vegna frétta um að mælst hefur efnið glýfosat í morgunkorni fyrirtækjanna í Bandaríkjunum.

Efnið er rakið til plöntueyðisins Roundup sem er víða notað. Þá hefur dómstóll dæmt garðyrkjubónda í hag í máli sem hann höfðaði gegn framleiðanda Roundup, Mon Santo, þar sem hann taldi að efnið glýfosat hafði valdið krabbameini.

„Við erum að skoða málið og höfum leitað viðbragða Kelloggs,“ segir Auðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs Nóa Síríus. Hann tekur fram að fyrirtækið flytur inn sínar vörur frá Evrópu og ekki frá Bandaríkjunum þar sem efnið mældist. Fyrirtækið flytur inn vinsælar kornvörur frá Kelloggs.

Ingibjörg Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Ölgerðarinnar, segir blaðamanni að fyrirtækið hafi haft samband við Quaker vegna glýfosat-mælinganna og óskað eftir upplýsingum. Hún tekur þó fram að fyrirtækið flytji ekki inn Old fashioned oats-vöruna sem hefur verið fjallað um í fréttum.

Samkvæmt Jóhanni Sveini Friðleifssyni, markaðsstjóra Nathan og Oslen hf., hefur fyrirtækið haft samband við General Mills og óskað eftir frekari upplýsingum. Fyrirtækið flytur meðal annars inn þekktar kornvörur eins og Cheerios og Cocoa Puffs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert