Guðmundur Ingi Guðbrandsson, auðlinda- og umhverfisráðherra, segist ekki sannfærður um að hvalveiðar við Ísland séu sjálfbærar. Þetta kemur fram í svari hans við fyrirspurn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur þar sem hún spyr m.a. hvort hann telji ástæðu til að endurskoða hvalveiðistefnu Íslendinga.
„Stefna Íslands í hvalveiðimálum hefur byggst á því að viðhalda rétti til að nýta hvalastofna við landið með sjálfbærum hætti líkt og aðrar lifandi auðlindir hafsins. Umhverfis- og auðlindaráðherra er ekki sannfærður um að umræddar veiðar hér við land séu sjálfbærar,“ segir í svarinu.
Núgildandi reglugerðarákvæði um leyfi til veiða á stórhvölum rennur út í árslok 2018. Í svari umhverfisráðherra við fyrirspurn Þorgerðar segir að samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu sé ekki farið að huga að frekari breytingum á reglugerðinni.
Þorgerður spurði jafnframt hvort ráðherra teldi ástæðu til rannsókna á hvort mengun stafi af vinnslu á langreyðum í Hvalstöðinni í Hvalfirði.
„Verði áframhald á hvalveiðum og þar með þessari starfsemi telur ráðherra ástæðu til frekari rannsókna á mengun í Hvalfirði sem m.a. kynni að stafa af hvalskurði og vinnslu á langreyðum í Hvalstöðinni,“ segir í svari Guðmundar en þar segir einnig að honum sé ekki kunnugt um rannsóknir á mengun í Hvalfirði sem tengjast beint hvalskurði og vinnslu á langreyðum í Hvalfirði.