„Það verður eitthvað að gerast. Mér finnst þetta svo mikið lottó með líf fólks og mig langar ekki til að spila í því,“ segir Kristín Ólafsdóttir, móðir ungs manns sem vísað var úr framhaldsmeðferð í Vík í gær eftir að hafa skilað ófullnægjandi þvagprufu. Ekki greindust nein vímuefni í þvaginu, heldur var saltmagnið mjög lágt, sem getur bent til þess að átt hafi verið við prufuna og hún hugsanlega vatnsþynnt. Kristín segir son sinn þó hafa pissað í glas fyrir framan ráðgjafa og hann því ekki haft neitt svigrúm til að eiga við þvagprufuna.
Sonur hennar hafði áður lokið tíu daga afeitrun á Vogi eftir að hafa misnotað kvíðastillandi lyf og komst í framhaldsmeðferð í Vík í kjölfarið. Þar hafði hann verið í sex daga þegar Kristín var beðin um að sækja hann. Hún er mjög ósátt við að syni hennar hafi strax verið vísað burt í stað þess að hann fengi að skila annarri þvagprufu.
„Ég skil alveg 100 prósent að það séu reglur og ferli sem unnið er eftir og ef það hefði mælst eitthvað í honum þá hefði ég alveg skilið að ég hefði verið látin sækja hann. En þarna er ekkert,“ segir Kristín í samtali við mbl.is. Hún segist vel skilja að ekki sé hægt að hafa fólk inni á meðferðarstofnunum sem er í neyslu, en hún er ósátt við að ástæða brottrekstar hjá einstaklingi í sinnu fyrstu meðferð, sé ófullnægjandi þvagprufa.
„Það er óeðlilega lágt saltmagn í þvaginu, ég fékk það staðfest hjá lækninum. Það gefur oft til kynna að það hafi verið vatnsblandað, en getur líka verið ýmislegt annað. Ég hef talað við fólk sem er í meðferðargeiranum og það hefur sagt mér að eitthvað geti verið að prufunum.“
Kristín segir brottreksturinn úr Vík vera að hafa mjög slæm áhrif á bataferli sonar hennar. Bataferlið var hafið. Hann vildi taka sig á og hafði stigið fyrstu skrefin. Þau erfiðustu. Nú er hann aftur á byrjunarreit og Kristín óttast um framhaldið.
Hún skrifaði um mál sonar síns á Facebook í gær, en færslan var skrifuð í samráði við hann. Kristín segir hann hafa verið bjartan, skemmtilegan og hlýðinn dreng og þau mæðgin hafi verið mjög náin. Hann hafi greinst með athyglisbrest og lesblindu og því hafi bóknám ekki legið fyrir honum. Hann hafi flosnað upp úr námi skömmu eftir að hann byrjaði í framhaldsskóla, en þá hafi hann líka verið byrjaður að fikta við kannabisneyslu. Hann hafi hafi glímt við kvíða og þunglyndi, hafi horast og liðið virkilega illa. Hún hafi haft miklar áhyggjur af honum og grunað hann um neyslu, en hann hafi alltaf verið í vörn. Svo hrundi veröldin þegar hún komst að því að hann var að misnota kvíðastillandi lyf.
„Ég sótti hann hálf dauðan heim til sín. Í skítugu rúmi, angandi af brennsa og út úr kortinu. Skráði hann á Vog. Þá tók við bið. Var með hann heima í skelfilegu ástandi, vaktaði hann í 17 daga. Elti hann. Fylgdist með honum. Greip hann við lyfjakaup. Hélt utan um hann, sat bara og beið þegar hann vildi ekki tala. Vakti. Hlustaði á þvaðrið í honum, sá hvernig hann átti erfitt með að koma orðum frá sér, skalf, taugakippir,“ skrifar Kristín um ástand sonarins. Hún segir þau þó hafa verið heppinn. Hann hafi verið gripinn snemma.
„Svo kom að Vogi sem hann fór á fyrir mig. Það var skýrt. Bara gert fyrir mömmu. Hann var enginn fíkill að eigin sögn. Í 10 daga naut hann atlætis og faglegrar þjónustu, var byggður upp og fellst hann á að fara í áframhaldandi meðferð á Vík. Eða velur það sjálfur í raun. Massa peppaður, til í að massa lífið og einlægur vilji til að taka sig á. Sá glitta í son minn þarna. Hann sá framtíð allt í einu. Sá möguleika á að gera eitthvað. Þurfti að vísu að bíða í 11 daga því það var jú lokað vegna sumarfría.“
Syni Kristínar leið vel í Vík. Þar fékk hann ákveðin hlutverk og ábyrgð og virtist hafa einlægan vilja til að taka sig á. Hún sá glitta í drenginn sinn aftur. Drenginn sem hún þekkti áður en fíknin náði tökum á honum. Svo hrundi allt. Aftur. Hún fékk símtal og var beðin um að sækja hann. Sonurinn var ekki lengur gjaldgengur í Vík.
„Það sem ég er að hafa mestar áhyggjur af núna er það hvernig ferlið er. Við erum með svo viðkvæma einstaklinga sem mega ekki við svona. Ég held að ég hafi náð að grípa inn áður en barnið var orðið „hard core“ fíkniefnaneytandi. Það hlýtur að vera það sem við viljum. Ég sæki hann og það er allt lokað. Göngudeildin er lokuð og opnar ekki fyrr en í næstu viku. það er úrræðið sem er í boði. Svo er það mikið að gera inni á Vogi að hann kemst ekki aftur þangað fyrr en 25. ágúst. Hann sjálfur segist ekki ætla að fara,“ segir Kristín, en afstaða sonarins vekur hjá henni ótta.
„Hann fór inn á Vog fyrir mig og það er bara tíu daga afeitrunarprógramm. Hann er ekkert til í það aftur. Nú er hann bara sár og reiður og þetta er búið í hans huga. Honum finnst ósanngjarnt að hann þurfi að fara í gegnum þetta allt aftur þar sem hann var að standa sig vel og var heiðarlegur. Það eru vonbrigðin hans.“
Nú eru þau bara að bíða. Kristín vakir yfir syni sínum eins og litlu barni og vill helst ekki að hann fari úr augnsýn. Hún ætlar að reyna að nýta tímann í að telja honum hughvarf. Fá hann til að fara inn á Vog. Hún skilur hann samt. Skilur reiðina og vonbrigðin.
„Vogur er auðvitað bara sjúkrahús sem afeitrar einstaklinga og það er sama prógrammið á hverjum degi. Hann er búinn með þetta. Það er verið að gera ekkert úr vinnunni sem hann er búinn að vinna.“
Á meðan sonur Kristínar beið eftir því að komast í Vík kom bakslag hjá honum. „Af því allt var lokað þá var hann sendur heim í ellefu daga. Ofboðslega erfiða og leiðinlega daga. Þá kom sprunga hjá honum, sem þýðir að hann féll einu sinni og lét vita af því. Hann fékk hrós fyrir það, því það er ekki venjan að fólk geti farið á Vík eftir sprungu. En út af þessu langa fríi fékk hann að fara. Þetta segir mér að hann er að standa sig mjög vel, en það að það komi sprunga sýnir hversu viðkvæmur hann er.“
Sonur Kristínar er í þokkalegu standi akkúrat núna, en það getur breyst eins og hendi sé veifað. Hann þarf hjálp til að verða sterkari gagnvart fíkninni. „Eftir hádegi getur ástandið verið annað. Núna er glaður, löngu vaknaður, búinn að fá sér að borða og á leið út að hlaupa. Svo getur eitthvað gerst. Hann er ekki í vinnu, þannig hvað get ég gert? Ég er bara að passa fullorðinn einstakling.“
Kristín segir mikilvægt að horfa til þess í máli sonar hennar að þetta hafi verið hans fyrsta meðferð. „Hann er venjulegt ungmenni sem er farið að misnota lyf sem eru að drepa börnin okkar. Þarna var hann gripinn. Við erum heppin, en ég get ekki lýst því sem ég er búin að ganga í gegnum núna. Ég hugsa alltaf um foreldrana sem hafa verið að upplifa þetta í mörg ár. Mjög margir hafa ekki félagslegt bakland, fjármagn eða orku til að vaka yfir barni í sautján daga.“ Kristín segir nauðsynlegt að gera breytingar á kerfinu. Það þurfi meiri sveigjanleika og fjölbreyttari úrræði. Þá sé slæmt að það komi rof í meðferðina, eins og gerst hefur hjá syni hennar.
„Við erum að tala um líf. Alveg ofboðslega viðknæman hóp og við verðum að breyta einhverju, einhverjum reglum. Bara ef hann hefði fengið að skila annarri þvagprufu, ég hefði glöð borgað fyrir hana.“