Embætti landlæknis varar við hættum ávanabindandi lyfja

Embætti landlæknis hefur varað við ávanabindandi lyfjum. Sterk verkjalyf eru …
Embætti landlæknis hefur varað við ávanabindandi lyfjum. Sterk verkjalyf eru hættulegustu lyfin. mbl.is/Valli

Vegna fjölmiðlaumfjöllunar um notkun ungmenna á ávanabindandi lyfjum hefur embætti landlæknis gefið út viðvörun um afleiðingar slíkra lyfja. „Ef of stór skammtur ávanabindandi lyfja er tekinn geta afleiðingarnar verið bæði bráðar og óafturkræfar fyrir einstaklinginn,“ segir á vef landlæknis.

Sterk verkjalyf hættulegust

Lyfjunum er skipt í þrjá flokka; sterk verkjalyf, róandi lyf og örvandi lyf.

Landlæknir segir sterk verkjalyf vera hættulegustu lyfin. Dæmi um slík lyf eru t.d. contalgin, oxycontin, fentanyl, búprenorfín og tramadól. Þessi lyf geta valdið blóðþrýstingsfalli og hættu á dái eða dauða vegna öndunarbælingar.

Róandi eða slævandi lyf eru sögð geta verið lífshættuleg séu þau tekin með áfengi eða öðrum lyfjum sem hafa bælandi áhrif á miðtaugakerfið. Alprazolam, sobril, stesolid, imovane, stilnoct og díazepam eru dæmi um slík lyf.

Örvandi lyf eru meðal annars amfetamín, ritalin uno og concerta. Bráð ofskömmtun slíkra lyfja getur meðal annars leitt til krampa, ofskynjana, óráðs, ofurhita, hraðtakts og háþrýstings.

Notkun margra efna eykur hættu

Í viðvörun landlæknis er tekið fram að notkun margra efna samtímis, svo sem lyfja, áfengis og ólöglegra efna, auki hættu sem fylgir notkun þeirra.

Þá kemur fram að einstaklingum sem sjaldan eða aldrei hafa notað viðkomandi lyf sé hættara við alvarlegum aukaverkunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka