Metanframleiðsla mun tvöfaldast

Frá fyrstu skóflustungunni í dag.
Frá fyrstu skóflustungunni í dag. Ljósmynd/Aðsend

Fyrsta skóflustungan að nýrri gas- og jarðgerðarstöð SORPU var tekin í dag í Álfsnesi. Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra og sex fulltrúar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og eigenda SORPU tóku fyrstu stunguna.

Eftir því sem fram kemur í tilkynningu SORPU markar verkefnið mikil tímamót þar sem með tilkomu stöðvarinnar verður bylting í meðhöndlun heimilisúrganga á höfuðborgarsvæðinu og urðun lífræns úrgangs verður liðin tíð.

Yfir 95% endurnýting heimilisúrgangs

Áætlað er að stöðin verði komin í fullan rekstur fyrri hluta árs 2020 og mun hún anna allt að 35.000 tonnum af lífrænum heimilisúrgangi. Markmiðið með gas- og jarðgerðarstöðinni er að nýta sem best allan lífrænan úrgang sem til fellur á heimilum á höfuðborgarsvæðinu.

Ársframleiðsla stöðvarinnar verður um 3 milljónir Nm3 af metangasi, sem hægt er að nýta sem eldsneyti á ökutæki, og hins vegar 10-12.000 tonn af jarðvegsbæti, sem hentar vel til landgræðslu.

Ætlað er að metanframleiðsla SORPU muni tvöfaldast með tilkomu gas- og jarðgerðarstöðvarinnar og getur metanið þá komið í staðinn fyrir um fimm milljónir bensínlítra árlega. Þá verða þúsundir tonna af jarðvegsbæti úr lífrænum heimilisúrgangi.

Stöðin mun líta svona út.
Stöðin mun líta svona út. Ljósmynd/SORPA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka