Útlit er fyrir að um 335 þúsundum færri farþegar muni fara um Keflavíkurflugvöll í ár en Isavia áætlaði í nóvember síðastliðnum. Það samsvarar rúmlega 900 farþegum á dag.
Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir nú áætlað að farþegar verði um 10 milljónir í ár.
Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair, segir lækkun tyrknesku lírunnar og meiri stöðugleika fyrir botni Miðjarðarhafs auka samkeppni um ferðamenn í Evrópu. Ísland muni finna fyrir því. Það bætist við aðra þætti, á borð við hækkandi verðlag hér. Hins vegar sé Ísland í afar góðri stöðu hvað ferðaþjónustu varðar.
„Það er klárlega meiri samkeppni. Það þýðir að við þurfum að vanda okkur meira til þess að Ísland haldi sínum stað. Þetta þýðir hins vegar alls ekki að Ísland sé í slæmri stöðu. Við erum enn í vexti þótt hann sé ekki jafn mikill og áður. Ég held að margir myndu öfunda Ísland af þeirri stöðu sem við erum í og höfum verið í,“ segir Gunnar Már í umfjöllun um farþegaþróunina um Keflavíkurflugvöll í Mmorgunblaðinu í dag.